Tónlist

Balkanskt tempó

Haukur Gröndal leiðir hljómsveitina Narona Musika.
Haukur Gröndal leiðir hljómsveitina Narona Musika. mynd/Guðmundur Albertsson

Þjóðlagahljómsveitin Narodna Musika heldur tónleika á Café Cultura í Alþjóðahúsinu við Hverfisgötu í kvöld. Tónleikarnir eru hluti af tónleikaferðalagi hljómsveitarinnar um Ísland.

Haukur Gröndal, klarinett- og saxófónleikari, leiðir sveitina en með honum leika Búlgararnir Borislav Zgurovski á harmóniku og Enis Ahmed á tamboura. Þorgrímur Jónsson leikur á kontrabassa og sænski trommarinn Erik Qvick leikur á slagverk. Þeir félagar munu leika búlgörsk þjóðlög í eldfjörugum tempóum.

Á tónleikunum verður einnig boðið upp á hlaðborð þar sem fólki gefst kostur á að bragða á balkönskum réttum. Sveitin mun svo leika fyrir matargesti en þessi háttur er oft hafður á á veitingastöðum í Búlgaríu og skapast skemmtileg stemning meðal annars vegna nálægðar við tónlistarmennina.

Um helgina leikur sveitin á Djasshátíðinni á Egilsstöðum en síðan liggur leiðin vítt og breitt þar sem leikið verður á sex tónleikum til viðbótar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×