Tónlist

Blúsinn trekkir að á Ólafsfirði

Deitra Farr er mjög þekkt innan blúsheimsins og þykir búa yfir óviðjafnanlegri rödd.
Deitra Farr er mjög þekkt innan blúsheimsins og þykir búa yfir óviðjafnanlegri rödd.

„Hátíðin er alltaf að vaxa. Í fyrstu var þetta ein kvöldskemmtun en nú er þetta þriggja daga hátíð með öllu tilheyrandi,“ segir Gísli Rúnar Gíslason, aðalskipuleggjandi Blúshátíðarinnar á Ólafsfirði, en hún var haldin í áttunda sinn um helgina.



Margir landsþekktir tónlistarmenn komu fram á hátíðinni í ár og þó að blúsinn hafi verið í forgrunni eins og ávallt er óhætt að segja að boðið hafi verið upp á tónlist af ýmsu tagi á Ólafsfirði um helgina. „Það var farið út í flesta sálma um helgina og djassarar og popparar ættu að hafa getað fundið eitthvað við sitt hæfi.“



Á meðal þeirra sem komu fram á hátíðinni í ár voru Pálmi Gunnarsson, Friðrik Ómar Hjörleifsson, Guðrún Gunnarsdóttir og margir fleiri. Hápunktur hátíðarinnar var síðan í gærkvöldi þar sem blúsdrottningin Deitra Farr kom fram ásamt stórsveitinni The Riott, sem Jón Ólafsson, Björn Thoroddsen og fleiri mætir listamenn skipa. Samhliða blúshátíðinni var haldinn stærðarinnar útimarkaður í auk þess sem leiktæki voru á staðnum fyrir yngri kynslóðina. „Þessi hátíð er farin að skipta sífellt meira máli og blæs miklu lífi í þetta bæjarfélag á hverju ári,“ segir Gísli Rúnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×