Tónlist

Sverrir Bergman í fótspor Oasis

Sverrir Bergman hyggst halda út til Cornwall í ágúst og tekur þar upp sólóplötu sína.
Sverrir Bergman hyggst halda út til Cornwall í ágúst og tekur þar upp sólóplötu sína.

„Ég reikna með að fara þarna út í ágúst,“ segir tónlistarmaðurinn Sverrir Bergman en hann hyggst halda í upptökuverið Sawmills og taka upp sólóplötu. Sverrir reiknaði fastlega með því að platan myndi taka þátt í hinu árlega jólaplötuflóði.

Söngvarinn fer ekki einn síns liðs út en meðal þeirra sem verða með í för eru Franz Gunnarsson, gítarleikari Dr. Spock. „Og svo reikna ég með því að við bætist tveir Bretar sem ég hef verið í ágætum samskiptum við.“

Sawmills-upptökuverið er ákaflega þekkt í breskum tónlistargeira en það er staðsett í Cornwall á suðurströnd Englands.

Upptökuverið er fjarri vegum og bílaumferð við Fowey-vatnið og því þurfa gestir staðarins að ferðast til og frá föstu landi með bát. Sawmills komst í sögubækurnar þegar Gallagher-bræðurnir Liam og Noel komu þar ásamt sveit sinni Oasis og tóku upp frumraun sína Definitely Maybe árið 1994 en platan gerði allt brjálað í Evrópu. Þá hafa sveitir á borð við Muse og Stone Roses tekið upp efni þarna sem og gamli rokkhundurinn Robert Plant.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×