Viðskipti innlent

Viðsnúningur hjá Össuri

Jón Sigurðsson forstjóri Össurar
Jón Sigurðsson forstjóri Össurar

Össur tapaði 1,2 milljónum Bandaríkjadala fyrstu sex mánuði árs, eða 81,8 milljónum króna sé miðað við meðalgengi á tímabilinu. Mikill viðsnúningur varð hins vegar á öðrum ársfjórðungi og skilaði félagið 1,5 milljónum Bandaríkjadala í hagnað, eða sem nemur 94,4 milljónum íslenskra króna.



Sala Össurrar nam 11,1 milljarði íslenskra króna á fyrri helmingi árs og jókst um rúman þriðjung milli ára. Alls seldist fyrir 5,6 milljarða íslenskra króna á öðrum ársfjórðungi.



Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, sagðist sjá skýr merki um viðsnúning hjá fyrirtækinu í Evrópu, á meðan tímabundins samdráttar gætti í Bandaríkjunum: „Við erum bjartsýn á að breytingar á sölukerfi okkar muni skila verulega jákvæðum áhrifum á næstu fjórðungum. Sala á stoðtækjum gengur vel og er í takt við markmið félagsins um átta til tólf prósenta vöxt.“



Bréf í Össuri stóðu í 111 krónum á hlut undir hádegið í gær og höfðu hækkað um 3,26 prósent þann morguninn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×