Viðskipti erlent

EMI opnar dyrnar fyrir Warner

Íslandsvinirnir í Coldplay.
Íslandsvinirnir í Coldplay. Mynd/AP

Breski tónlistarrisinn EMI ákvað í gærkvöldi að gera bandaríska útgáfufyrirtækinu Warner Music kleift að leggja fram yfirtökutilboð í samsteypuna. EMI, sem er með stórstjörnur á borð við Íslandsvinina í Coldplay og Robbie Williams á sínum snærum, mun hafa sagt forsvarrsmönnum Warner að tilboðið verði að vera ásættanlegt auk þess sem yfirvöld verði að samþykkja það áður en gengið verði frá kaupum.

Breska dagblaðið Guardian segir að verði af samruna útgáfurisanna muni EMI og Warner flytja megnið af þeim hljómsveitum og tónlistarmönnum sem fyrirtækið gefur út til nýs og sjálfstæðs útgáfufélags.

EMI sendi frá sér neikvæða afkomuviðvörun fyrir nokkru og gerir ráð fyrir verri afkomu en gert hafði verið ráð fyrir vegna minni sölu á tónlist undir merkjum fyrirtækisins.

Sala á tónlistardiskum hefur dregist talsvert saman hjá báðum fyrirtækjunum og horfa þau til þess að með samruna geti þau eflt sölu á stafrænni tónlist, ekki síst á netinu. Mun sameinað félag hafa um 25 prósenta markaðshlutdeild á heimsvísu verði af gjörningnum.

Ekkert liggur fyrir um tilboðið enn sem komið er. Breska ríkisútvarpið hefur eftir greinendum að vel geti farið að það hljóði upp á 260 pens á hlut, sem er um 18,5 pensum yfir lokagengi EMI í gær.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×