Viðskipti erlent

Hráolíuverð enn á uppleið

Frá bensínstöð í Kína um það leyti sem olíuverð stóð í sögulegu hámarki síðasta sumar.
Frá bensínstöð í Kína um það leyti sem olíuverð stóð í sögulegu hámarki síðasta sumar. Mynd/AFP

Heimsmarkaðsverð á hráolíu fór yfir 64 dala á tunnu dag. Verðið skaust til skamms tíma í 68 dali á tunnu og hefur verðmiðinn á svartagullinu ekki verið hærri síðan síðastliðið haust. Olíuverðið hefur hækkað jafnt og þétt eftir að Íranar handtóku 15 breska sjóliða innan írönsku landhelginnar á Persaflóa á föstudag fyrir viku.

Spennan á milli Vesturveldanna og Írans hefur aukist nokkuð eftir handtökunnar og segjast Bretar ætla að fara með mál sjóliðanna fyrir Sameinuðu þjóðirnar.

Hráolía, sem afhent verður í maí, hækkaði um 6 sent á markaði í Bandaríkjunum í dag og stendur nú í 64,14 dölum á tunnu. Verðið hefur ekki verið hærra síðan í september í fyrra. Þá hækkaði verð á Brent Norðursjávarolíu um 36 sent í Bretlandi í dag og stendur tunnan í 66,14 dölum.

Orðrómur var uppi um það í dag að Íranar hefðu skotið á bandaríska herskip á Persaflóa í dag. Bandaríski herinn neitar fréttum þessa efnis. En orðrómurinn hafði áhrif á fjárfesta og skaust hráolíuverðið í 68 dali á tunnu til skamms tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×