Viðskipti erlent

DaimlerChrysler skoðar sölu á Chrysler

Dieter Zetsche, forstjóri DaimlerChrysler, og Tom LaSorda, forstjóri Chrysler í Bandaríkjunum.
Dieter Zetsche, forstjóri DaimlerChrysler, og Tom LaSorda, forstjóri Chrysler í Bandaríkjunum. Mynd/AFP

Þýski bílaframleiðandinn DaimlerChrysler hefur staðfest að fyrirtækið eigi í viðræðum um sölu á Chrysler-hluta fyrirtækisins í Bandaríkjunum. Daimler keypti Chrysler árið 1998 en það hefur átt við viðvarandi taprekstur að stríða.

Chrysler-hluti fyrirtækisins skilaði 1,5 milljarða dala, tæplega 100 milljarða króna, tapi á síðasta ári og hefur verið þrýstingur á DaimlerChrysler að það losi sig við fyrirtækið.

Chrysler hefur líkt og aðrir bandarískir bílaframleiðendur gripið til nokkurra hagræðingaaðgerða til að snúa rekstrinum við, meðal annars með uppsögnum á 13.000 starfsmönnum og lokun tveggja verksmiðja.

Breska ríkisútvarpið (BBC) hefur eftir Dieter Zetsche, forstjóra DaimlerChrysler, í dag að fyrirtækið eigi í viðræðum við nokkra aðila, sem hafi sýnt áhuga á kaupum á Chrysler.

Ekki liggur fyrir hvaða fyrirtæki DaimlerChrysler á í viðræðum við en nokkur hafa komið til greina, svo sem bandaríski bílarisinn General Motors og kanadíska fyrirtækið Magna International.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×