Fótbolti

Valencia óttast Drogba og Shevchenko

Leikmenn Valencia eru hræddir við Drogba og Shevchenko.
Leikmenn Valencia eru hræddir við Drogba og Shevchenko. MYND/Getty

Varnarmaðurinn Emiliano Moretti hjá Valencia segir að framherjar Chelsea, þeir Andriy Shevchenko og Didier Drogba, séu þeir sem geta komið í veg fyrir að spænska liðið fari í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu. Moretti segir að leikmenn Valencia hafa góðar gætur á þeim félögum ef ekki á illa að fara í síðari leik liðanna á morgun.

Valencia er í góðri stöðu eftir fyrri leikinn þar sem það náði 1-1 jafntefli á Stamford Bridge og nái liðið að halda hreinu er það þar af leiðandi komið áfram. En Moretti segir að Chelsea sé ávallt líklegt að skora með þá Drogba og Shevchenko í framlínunni.

“Við verðum að halda fullri einbeitingu í 90 mínútur til að komast í gegnum þá hindrun sem Chelsea er. Við erum að fara að spila á móti einu af bestu liðum heims. Í framlínunni eru Drogba og Shevchenko mjög hættulegir, enda báðir líkamlega sterkir og með gott markanef. Þeirra samvinna er mjög góð,” segir Moretti.

“Það er hins vegar alveg ljóst að við erum með yfirhöndina. Chelsea þarf að sækja til að skora markið sem liðinu vantar, og það þýðir að þeir þurfa hugsanlega að breytta skipulagi sínu aðeins. Chelsea vill sitja aftur og beita skyndisóknum en það gengur varla upp í þessum leik. Að því leyti höfum við ákveðið forskot,” bætti Moretti við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×