Viðskipti erlent

Afkoma Coca Cola yfir væntingum

Bandaríski gosdrykkjaframleiðandinn Coca Cola skilaði hagnaði upp á 1,26 milljarða bandaríkjadala, jafnvirði 82,4 milljarða íslenskra króna, á fyrsta fjórðungi ársins. Til samanburðar nam hagnaðurinn 1,11 milljörðum dala, jafnvirði 72,6 milljörðum króna, á sama tíma í fyrra. Þetta er 14 prósenta aukning á milli ára.

Hagnaðurinn er fyrst og fremst kominn til vegna aukinnar sölu á vörum undir merkjum Coca Cola um allan heim að Bandaríkjunum undanskildum en þar dróst sala á vörum fyrirtækisins saman um þrjú prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins. Salan í heild hefur ekki verið með jafn góðu móti síðan árið 2002.

Í afkomutölunum eru afskriftir hjá dótturfyrirtækjum Coca Cola á Filipseyjum og hagnaður vegna sölu á átöppunarverksmiðju í Brasilíu og öðrum eignum á Spáni.

Tekjur fyrirtækisins námu 6,1 milljarði dala, jafnvirði 398,9 milljarða íslenskra króna á tímabilinu en það er 17 prósenta aukning frá sama tíma á síðasta ári. Þá er afkoman yfir væntingum greinenda á Wall Street sem spáðu því að tekjur gosdrykkjaframleiðandans myndu nema 5,63 milljörðum dala, 368,2 milljörðum íslenskra króna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×