Fótbolti

Yrði fínt að fara í vítaspyrnukeppni

Leikmenn Liverpool fagna Jose Reina eftir vítaspyrnukeppnina við Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.
Leikmenn Liverpool fagna Jose Reina eftir vítaspyrnukeppnina við Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. MYND/Getty

Xabi Alonso, hinn spænski miðjumaður Liverpool, segir að leikmenn liðsins vilji gjarnan að úrslitaleikurinn gegn AC Milan í Meistaradeildinni ráðist í vítaspyrnukeppni. Alonso segir að markvörðurinn Pepe Reina sé besti vítabani í heiminum í dag og með hann á milli stanganna geti ekki mörg lið staðist Liverpool snúning í vítaspyrnukeppni.

“Við myndum elska að fara í vítaspyrnukeppni,” viðurkenndi Alonso í samtali við enska blaðamenn í dag. Eins og margir muna varð Liverpool Evrópumeistari fyrir tveimur árum með því að vinna AC Milan eftir vítaspyrnukeppni. Þá var það pólski markvörðurinn Jerzy Dudek sem var hetja liðsins en nú kæmi það í hlut Pepe Reina að vera í hetjuhlutverkinu.

“Dudek var frábær í Istanbúl og Pepe Reina er þekktur á Spáni fyrir að verja víti. Við erum í góðum málum ef farið verður í vítaspyrnukeppni,” segir Alonso, en leikurinn fer fram á miðvikudagskvöldið og verður sýndur í beinni útsendingu á Sýn.

“Leyndarmál Reina er að rannsaka andstæðinganna. Hann eyðir miklum tíma í að kortleggja vítaspyrnur þeirra og í flestum tilvikum veit hann fyrirfram hvert þeir munu skjóta,” sagði Alonso um markvörð sinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×