Bíó og sjónvarp

Simpson frumsýnd á morgun

Jón Hákon Halldórsson skrifar

Kvikmyndin um Simpson fjölskylduna verður frumsýnd hér á landi á morgun. Sama dag verður einnig sýndur á Stöð 2 tímamótaþáttur - sá fjögurhundruðasti í röðinni.

Til að fagna þessum áfanga var brugðið á það ráð að bjóða aðdáendum Simpsons 400. þáttinn með íslensku tali.

Allir þeir sem talsettu myndina koma einnig að talsetningu þáttarins. Örn Árnason ljær Hómer rödd sína, Margrét Vilhjálmsdóttir talar fyrir Marge, Sigrún Edda Björnsdóttir fyrir Bart og Álfrún Örnólfsdóttir fyrir Lisu. Jakob Þór Einarsson leikstýrði og Davíð Þór Jónsson þýddi.

Íslenska útgáfan af 400. þætti Simpson fjölskyldunnar er á dagskrá Stöðvar 2 á morgun kl. 20.05 . Þátturinn verður svo sýndur á ensku viku síðar.

Sýningar á 19. þáttaröðinni um Simpson fjölskylduna hefjast í september vestanhafs og nokkrum mánuðum síðar á Stöð 2.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×