Viðskipti innlent

Lækkun í Kauphöllinni

Hörður Arnarson, forstjóri Marel Food Systems. Gengi bréfa í fyrirtækinu hefur hækkað mest í Kauphöllinni í dag.
Hörður Arnarson, forstjóri Marel Food Systems. Gengi bréfa í fyrirtækinu hefur hækkað mest í Kauphöllinni í dag. Mynd/E.Ól.

Gengi hlutabréfa lækkaði almennt við opnun viðskipta í Kauphöllinni í dag. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 0,5 prósent og stendur hún í 8.241 stigi. Þróunin er í takti við lækkun á hlutabréfamörkuðum í Evrópu og í Japan. Gengi bréfa í Marel hækkaði mest í fyrstu viðskiptum dagsins en gengi bréfa í Straumi-Burðarási lækkaði mest.

Hlutabréfavísitölur í Bretlandi, Þýskalandi og í Frakklandi hafa allar lækkað í dag. FTSE-vísitalan í Bretlandi hefur lækkað um 0,26 prósent, þýska Dax-vísitalan um 0,44 prósent og hin franska Cac-40 um rúm 0,60 prósent.

Þá lækkaði Nikkei-vísitalan í Japan um 1,6 prósent við lokun hlutabréfamarkaða í Tókýó í dag.

Gengi bréfa í Marel hefur hækkað um 0,94 prósent og stendur gengi þeirra í 97 krónum á hlut. Þá hefur gengi bréfa í Icelandair og Alfesca einnig hækkað en önnur ýmist lækkað eða staðið í stað. Gengi bréfa í Straumi-Burðarási hefur lækkað mest, eða um 0,74 prósent, og stendur það í 20,20 krónum á hlut.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×