Viðskipti innlent

Stærsti prentsamningur Íslands í höfn

Jón Jósafat Björnsson, framkvæmdastjóri Odda, sem gerði stærsta prentsamning sem gerður hefur verið hér á landi við Birtíng í dag.
Jón Jósafat Björnsson, framkvæmdastjóri Odda, sem gerði stærsta prentsamning sem gerður hefur verið hér á landi við Birtíng í dag. Mynd/Hari

Prentsmiðjan Oddi og Birtíngur útgáfufélag ehf. hafa gert með sér samning um prentun allra tímarita Birtíngs. Þetta mun vera einn stærsti prentsamningur sem gerður hefur verið hér á landi og sá stærsti sem gerður hefur verið um prentun tímarita. Samkvæmt honum prentar Oddi yfir 220 tölublöð af tímaritum Birtíngs á ári.

Virði samningsins hefur ekki verið gefið upp.

Í samningnum felst að Oddi prentar rúmlega fjögur tölublöð Birtíngs í hverri viku. Það eru vikublöðin Séð og heyrt og Vikuna auk mánaðarblaðanna Gestgjafinn, Nýtt líf, Hús og híbýli, Sagan öll, Golfblaðið, Ísafold og Mannlíf. Árlegur fjöldi er áætlaður vel yfir 2 milljónir eintaka.

Haft er eftir Jóni Jósafat Björnssyni, framkvæmdastjóra Odda, í tilkynningu að samningurinn sé hagstæður fyrir báða aðila sem meðal annars þýði að fyrirtækið geti tekið stærri skref í fjárfestingum hvað varðar framleiðsluna sjálfa og þjónustuferlið. „Það eru spennandi tímar framundan í tímaritaútgáfu í heiminum í dag og talsverðir möguleikar á bæta þjónustu okkar enn meira en nú er. Allt kostar þetta hins vegar talsverðar fjárhæðir en þessi samningur um prentun allra tímarita Birtíngs minnkar áhættu okkar verulega," segir Jón.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×