Viðskipti innlent

Mikill samdráttur í smásöluveltu

Fólk verslaði talsvert minna í síðasta mánuði en í ágúst.
Fólk verslaði talsvert minna í síðasta mánuði en í ágúst.

Smásöluvelta dróst saman um 9,4 prósent á föstu verði á milli mánaða í september, samkvæmt smásöluvísitölu Rannsóknaseturs verslunarinnar. Greiningardeild Glitnis bendir á að þetta sé mesti samdrátturinn það sem af sé þessu ári að janúar undanskildum.

Greiningardeildin bendir á það í morgunkorni sínu í dag að samdráttur varð í öllum undirliðum smásöluvísitölunnar í september, mest í áfengissölu sem dróst saman um 19,3 prósent á milli mánaða.

Deildin tekur hins vegar fram að mikill vöxtur hafi verið í smásöluveltu á árinu miðað við tólf mánaða breytingu. Þannig hafi smásöluverslun aukist um ríflega 13 prósent frá því í september í fyrra á föstu verði. Það komi reyndar ekki á óvart í ljósi hækkandi eignaverðs á árinu og mikils kaupmáttar launa, að sögn greiningardeildar Glitnis sem þó bætir við að auk árstíðabundinna þátta virðist órói á fjármálamörkuðum og gengislækkun krónu hafa haft neikvæð áhrif á neytendur í síðasta mánuði. Það geti þó reynst tímabundið enda hafi krónan styrkst að nýju og fjármálamarkaðir róast undanfarnar vikur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×