Viðskipti innlent

Baugur að kaupa Saks?

Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs.
Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs.

Líkur eru sagðar á því að Baugur Group sé að íhuga að gera allt að þriggja milljarða dala, jafnvirði rúmlega 180 milljarða króna, tilboð í bandarísku lúxusverslunina Saks á næstunni í félagi við aðra fjárfesta, svo sem skoska auðkýfinginn Tom Hunter, einn ríkasta mann Skotlands. Gangi þetta eftir verður það fyrsta yfirtaka Baugs í Bandaríkjunum, að sögn breska dagblaðsins Times.

Greint var frá því í byrjun vikunnar að eigendur Saks, sem rekur 54 verslanir í 25 fylkjum Bandaríkjanna, væru opnir fyrir sölu á fyrirtækinu og voru nokkur fyrirtæki nefnd til sögunnar sem hugsanlegir kaupendur. Þar á meðal var fjárfestingafélagið Cerberus, sem keypti fyrir nokkru stóran hlut í bílaframleiðandanum Chrysler, og Baugur en Times segir Gunnar Sigurðsson, forstjóra Baugs og Don McCarthy, stjórnarmann í Baugi, hafa fundað með forráðamönnum Saks.

Baugur greindi frá því í júlí að það ætti rúman átta prósenta hlut í Saks og stefni á frekara landnám í Vesturheimi. Times segir í dag, að með kaupum á Saks gangi eftir áætlanir fyrirtækisins að koma vörum undir fyrirtækjahatti Mosaic Fashions í verslanir Saks.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×