Enski boltinn

Stuðningsmenn Liverpool fylkjast um Benitez

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafa Benitez er vinsæll hjá stuðningsmönnum Liverpool.
Rafa Benitez er vinsæll hjá stuðningsmönnum Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

Allt að fimm þúsund stuðningsmenn Liverpool munu taka þátt í göngu á leik Liverpool í Meistaradeild Evrópu í kvöld til stuðnings Rafael Benitez knattspyrnustjóra.

Stuðningsmennirnir hafa í hyggju að ganga frá krá í grenni við Anfield Road, heimavöll Liverpool, og sýna þannig stuðning sinn í verki.

Benitez hefur verið mikið í umræðunni undanfarna daga vegna deilu hans við eigendur Liverpool, þá Tom Hicks og George Gillett, um stefnu félagsins í leikmannakaupum.

Benitez sagði í gær að nú væri kominn tími til að lægja öldurnar en Liverpool mætir Porto í kvöld. „Við þurfum nauðsynlega á þremur stigum að halda í kvöld," sagði hann.

Á undanförnum dögum og vikum hefur hann tvívegis veist að eigendum liðsins í fjölmiðlum og sagt að þeir skilji ekki mikilvægi þess að kaupa leikmenn þegar félagaskiptaglugginn opnar í janúar næstkomandi.

Benitez sagði einnig að hann hafi átt góðar viðræður við Rick Parry, framkvæmdarstjóra Liverpool, í gær.

Jafnvel þótt Liverpool vinni Porto í kvöld verða þeir einnig að vinna lið Marseille á úitvelli þann 11. desember til að komast í 16-liða úrslit keppninnar.

Aðgerðirnar eru skipulagðar af stuðningsmannasamtökunum „Reclaim the Kop“. Talsmaður samtakanna, John Mackin, sagði í samtali við The Daily Telegraph að tilgangur Liverpool væri ekki að skila eigendum sínum hagnaði.

„Tilgangur Liverpool er að vinna titla og standa sig vel svo að stuðningsmenn liðsins geti verið stoltir af félaginu sínu. Rafa er langmikilvægasta persónan hjá Liverpool, það er alveg ljóst mál.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×