Fótbolti

Endurkoma Deco slæm tíðindi fyrir Eið Smára

NordicPhotos/GettyImages

Spænskir fjölmiðlar greina frá því í morgun að nú styttist óðum í endurkomu þeirra Deco og Samuel Eto´o inn í byrjunarlið Barcelona, en þeir hafa báðir átt við meiðsli að stríða að undanförnu.

Meiðsli Deco á sínum tíma þýddu tækifæri fyrir Eið Smára Guðjohnsen sem hefur á ný fengið að spila með liðinu af og til síðustu vikur í fjarveru portúgalska miðjumannsins.

Eiður hefur nýtt tækifæri sitt vel að sögn blaðsins Sport á Spáni, sem segir Íslendinginn hafa komið með vinnusemi og baráttugleði inn í leik Barcelona. Það hafi þó ekki náð að kveikja í liðinu sem hafi virkað dauft á síðustu vikum - sérstaklega á útivelli.

Blaðið segir að þó Eiður hafi verið vaxandi í hlutverki sínu á miðjunni undanfarið, sé útlit fyrir að hann missi sæti sitt þegar Deco kemur aftur inn í myndina.

Samuel Eto´o hefur verið við æfingar hjá Barca síðan 25. nóvember en er nýverið farinn að geta tekið á því á fullu á æfingum og verður líklega í hóp Barcelona gegn Deportivo í næsta leik.

Sport segir að Deco komi einnig til greina í þeim leik, þó hann sé ekki kominn alveg jafnlangt á veg í endurhæfingu sinni. Deco hefur æft einn síns liðs síðustu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×