Enski boltinn

„Frammi­staðan var góð“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þjálfari Chelsea var sáttur eftir stig gegn Arsenal.
Þjálfari Chelsea var sáttur eftir stig gegn Arsenal. EPA-EFE/TOLGA AKMEN

„Ég naut leiksins. Frammistaðan var góð,“ sagði Enzo Maresca, þjálfari Chelsea, eftir 1-1 jafntefli sinna manna gegn nágrönnunum í Arsenal þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeild karla í fótbolta á Brúnni.

Leiknum lauk með 1-1 jafntefli sem gerir lítið fyrir bæði lið sem eru nú með 19 stig í 3. til 6. sæti deildarinnar.

„Við þekkjum lið þeirra nokkuð vel og spiluðum frekar vel. Frammistaðan er mjög mikilvæg fyrir okkur á þessu augnabliki og hún var góð. Við getum nú hvílt okkur áður en við höldum áfram,“ sagði Maresca eftir leik en nú er landsleikjahlé framundan og því nokkuð langt í næsta leik.

„Frammistaða Pedro Neto (markaskorara Chelsea) var virkilega góð, allir leikmenn okkar börðust vel í dag. Við spiluðum eins og við viljum spila, vorum hugrakkir og spiluðum boltanum ávallt úr öftustu línu.“

„Hann hefur verið algjör atvinnumaður síðan ég kom til félagsins og hann er að spila frábærlega,“ sagði Maresca um miðjumanninn Moises Caicedo.

„Aðstoðardómarinn lyfti flagginu svo það var rangstæða. Varnarlega vorum við virkilega góðir að markinu undanskildu. Fyrir utan það vorum við góðir,“ sagði þjálfarinn um færi sem Skytturnar fengu í blálok leiksins.

„Þetta er það sem við viljum gera. Við viljum reyna að spila okkar bolta og gefa öllum liðum deildarinnar leik. Við erum Chelsea svo það er mikilvægtað senda þessi skilaboð. Það eru þjálfarar sem hafa verið hjá félögum í fimm til níu ár svo við erum á eftir þeim,“ sagði Maresca að endingu en hann tók við sem þjálfari Chelsea síðasta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×