Fótbolti

Sama sagan hjá Dudek

NordicPhotos/GettyImages

Pólski markvörðurinn Jerzy Dudek hjá Real Madrid segist líklega þurfa að fara frá félaginu ef hann ætli sér að eiga von um að spila með landsliði sínu á EM næsta sumar.

Dudek fór frá Liverpool einmitt vegna þess að hann var alltaf varamaður en finnur sig vitanlega í nákvæmlega sömu stöðu hjá Real Madrid þar sem hann er varamaður eins besta markvarðar heims - Iker Caslillas.

Hann segist þó ekki sjá eftir því að hafa ákveðið að fara til Spánar.

"Ég sé ekki eftir því að koma hingað," sagði hann í samtali við Marca. "Þegar ég ákvað að fara til Madrid, var sú ákvörðun byggð á því að mig langaði að vera partur af besta félagi í heimi og að ég yrði varamaður. Aðstæður mínar hafa hinsvegar breyst nokkuð undanfarið af því pólska landsliðið er komið á EM í fyrsta sinn og landsliðsþjálfarinn hefur sagt mér að ég sé inni í myndinni hjá honum ef ég fæ að spila reglulega með félagsliði mínu. Ég er því kominn í erfiða stöðu og hef ekki hugsað um annað síðustu vikuna," sagði markvörðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×