Tónlist

Indí-fólk hefur lítið sjálfsálit

Curt Cobain, fyrrum forsprakki Nirvana var mikill indí-aðdáandi þegar hann var uppi.
Curt Cobain, fyrrum forsprakki Nirvana var mikill indí-aðdáandi þegar hann var uppi.

Aðdáendur indí-tónlistar hafa lítið sjálfsálit og eru stefnulausir í lífinu en líta samt á sjálfa sig sem skapandi einstaklinga. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem gerð var af Heriott Watt-háskólanum í Edinborg og tónlistarsíðunni Peopleintomusic.com. Í könnuninni, sem um 36 þúsund manns svöruðu, var spurt um persónuleika þátttakenda og tónlistar-áhuga þeirra.

Aðdáendur rapptónlistar hafa mikið sjálfsálit og eru ákaflega opnir einstaklingar en rokkarar eru skapandi og hafa nægt sjálfs­álit, auk þess að vera duglegir og sáttir við sjálfa sig.

Blúsáhugamenn eru opnir, með sjálfsálitið í lagi og aðdáendur reggítónlistar eru skapandi, opnir, ljúfir og örlátir en frekar latir. Fólk sem hlustar á danstónlist er opið en óvingjarnlegt og hugsar of mikið um eigið skinn. Í könnuninni komu fram töluverð líkindi með þungarokkurum og aðdáendum sígildrar tónlistar. Báðar manngerðirnar hafa frekar mikið sjálfsálit en eru að sama skapi frekar lokaðar. „Fyrir utan aldursmuninn eru þeir eiginlega sama manneskjan," sagði prófessorinn Adrian North.

„Margir þungarokksaðdáendur hafa gaman af Wagner vegna þess að tónlist hans er stór í sniðum og hávær. Einnig er mikið um leikhúsáhrif bæði í þungarokki og sígildri tónlist og mig grunar að aðdáendurnir leitist við að heyra þau áhrif í tónlistinni."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×