Fótbolti

Laporta hélt naumlega velli

Elvar Geir Magnússon skrifar
Laporta heldur velli þrátt fyrir að meirihluti meðlima Barcelona vilji hann burt.
Laporta heldur velli þrátt fyrir að meirihluti meðlima Barcelona vilji hann burt.

Meðlimir Barcelona kusu í gær hvort lýsa ætti vantrausti á forseta félagsins, Joan Laporta. Alls voru það 60% þeirra sem kusu sem lýstu yfir vantrausti en 66% hefði þurft til að Laporta neyddist til að stíga af stóli.

Alls kusu 37.294 og aðeins 37,75% af þeim lýstu yfir stuðningi við núverandi stjórn, eða 14.871 atkvæði.

Maður að nafni Oriol Giralt bar tillöguna upp á borð og safnaði undirskriftum til að kosningin gæti farið fram. „Stjórnin ætti að skoða úrslit þessara kosninga vel því þau eru skýr skilaboð. Ef ég væri forseti myndi ég segja af mér í þessari stöðu," sagði Giralt eftir að úrslit lágu fyrir.

Laporta ætlar að sitja út sitt kjörtímabil eða til 2010. Sandro Rosell hefur hinsvegar lýst því yfir að hann sé tilbúinn í forsetaframboð ef Laporta stígur af stóli.

Rosell átti stærstan þátt í því að fá Ronaldinho og Deco til Börsunga þegar hann var varaforseti félagsins. Hann sagði síðan af sér 2005 en hann var ósáttur við stjórnarhætti Laporta.

Laporta hefur legið undir harðri gagnrýni síðustu tvö ár og hafa stuðningsmenn Barcelona staðið fyrir mótmælum og krafist þess að hann láti af völdum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×