Fótbolti

Lofar meiri sóknarbolta

Elvar Geir Magnússon skrifar
Cristiano Ronaldo fékk litla hjálp í sóknarleiknum á miðvikudag.
Cristiano Ronaldo fékk litla hjálp í sóknarleiknum á miðvikudag.

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, lofar meiri sóknarbolta frá sínum mönnum í seinni leiknum gegn Barcelona. Liðin gerðu markalaust jafntefli í fyrri leiknum á miðvikudag.

„Einvígið milli þessara liða fer fram á Old Trafford, þar ráðast úrslitin. Með andrúmsloftið sem þar ríkir er ljóst að við munum spila allt öðruvísi en í fyrri leiknum," sagði Ferguson.

Barca sótti mun meira í leiknum á miðvikudag en Ferguson var ánægður með varnarleik United. „Ég neita því hinsvegar ekki að sóknarleikurinn var ekki nægilega góður. Við fengum færi á skyndisóknum en misstum boltann of auðveldlega," sagði Ferguson.

„Þrátt fyrir að hafa verið mun meira með boltann þá skapaði Barcelona ekki mörg færi. Með stöðuna 0-0 úr þessum leik höfum við frábæra möguleika í þeim síðari."

Paul Scholes lék 100. leik sinn í Meistaradeildinni og fékk hrós frá Ferguson. „Skilningur hans á leiknum var magnaður. Móttökur hans voru frábærar og hann missti boltann aldrei," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×