Borgarstjórinn í Spír Einar Már Jónsson skrifar 17. september 2008 05:00 Sú kenning hefur stundum heyrst meðal araba að Shakespeare hafi í rauninni verið af þeirra kynþætti, arabi í húð og hár, og hafi hann nánar tiltekið verið höfðingi eða borgarstjóri, þ.e.a.s. „sjeik", yfir bænum Spír sem mun vera einhvers staðar norðarlega í Írak. Liggur þetta að sögn í augum uppi þegar nafnið er skrifað með arabísku letri, en auk þess hef ég heyrt fylgismenn þessarar kenningar benda á að til sé ljósmynd af hinu mikla leikritaskáldi klæddu á arabíska vísu, hvar svo sem hana er að finna. Frakkar hlæja gjarnan að þessu, svona álíka mikið og þeir hlæja þegar einhver heldur því fram að norrænir menn hafi siglt til Vínlands á austurströnd Norður-Ameríku á miðöldum. En nú hafa arabar fært fram ný og sterk rök fyrir því að Shakespeare hafi í raun og veru skrifað frá hægri til vinstri og vafalaust borið túrban líka, með því að sýna „Ríkarð þriðja" á arabískri tungu í einu merkasta leikhúsi Parísar, „Le Théatre des Bouffes du Nord", þar sem hinn víðfrægi leikhúsmaður Peter Brook ræður ríkjum, og til að ekkert færi nú á milli mála var þessi gerð leikritsins kölluð „Richard III, An Arab Tragedy". Leikstjórinn hét Sulayman Al-Bassam og í titilhlutverkinu var leikari að nafni Fayez Kazaq. Yfir þessari sýningu var óneitanlega sterkur heildarsvipur. Eins og hin enska útgáfa verksins gerðist þessi arabíska útgáfa á „15. öld", en það var að vísu samkvæmt arabísku tímatali og jafngildir sá tími seinni hluta 20. aldar og byrjun hinnar 21. eftir tímatali Vesturlandabúa; staðurinn var ónefnt furstadæmi eða konungdæmi í grennd við Persaflóa, þar sem auðugar olíulindir voru „í norðri". Sviðið var alveg autt, en aftast voru stór tjöld, þar sem stundum birtust silhúettur af mönnum sem sátu og pikkuðu á tölvu eða töluðu í síma, en stundum urðu tjöldin að risastórum sjónvarpsskermi. Til hægri við sviðið var fimm manna arabísk hljómsveit sem lék á ásláttarhljóðfæri, svo og pípu og lútu. Ríkarður af Gloucester birtist fyrst í einkennisbúningi engilsaxneskra hershöfðingja, en svo var hann fljótt kominn í arabísk klæði eins og flestallar aðrar persónur leikritsins. Í þessum búningum og öllu því látbragði sem þeim fylgdi, að ógleymdum hljóminum í tungumálinu, urðu samsærin, lygarnar og undirferlið í verkinu ákaflega sannfærandi, og sum atriði hittu svo vel í mark að varla varð á betra kosið. Það hefur t.d. oft vafist fyrir leikstjórum að setja á svið það atriði í fyrsta þætti verksins, þegar Ríkarður af Gloucester fer á fjörurnar við lafði Önnu við jarðarför Hinriks 6. tengdaföður hennar sem hann hafði sjálfur vegið, og biðlar til hennar með alls kyns leikaraskap. En í þessari arabísku gerð eru hinar syrgjandi konur að sjálfsögðu allar huldar svörtum blæjum svo það er hægðarleikur fyrir Ríkarð að dulbúa sig sem eina af þeim, bregða yfir sig sama hjúpi og laumast inn í jarðarförina með sitt ólíkindatal. Einungis nefið stendur út úr dúknum og kemur til kasta þess að túlka allt undirferlið. Manni finnst að þannig hljóti þetta atriði alltaf að hafa verið hugsað. Þegar Ríkarður af Gloucester kemur af stað þeim orðrómi að synir Játvarðar konungs fjórða séu bastarðar og ekki réttbornir til ríkis er í þessari gerð vitnað til DNA-rannsóknar sem framkvæmd hafi verið í „erlendri rannsóknarstofu". Þá virðist Ríkarður standa næst því að erfa ríkið, en hann biðst undan því, í þriðja þætti verksins, en hér er það atriði sett upp sem sjónvarpsumræður í beinni útsendingu, nokkuð auknar miðað við enska textann, og í miðjum klíðum hringir síminn: það er formaður Arababandalagsins að hvetja Ríkarð til að láta undan óskum allra og taka á sig konungdæmið. Þá var skúrkshátturinn orðinn svo yfirgengilegur að áhorfendur veltust um af hlátri. Ýmsir setja sig á móti Ríkarði, og þegar einn þeirra komst undan rigndi yfir leikhúsgesti miðum með mynd af honum og áletrun á arabísku og ensku: „Þessi maður er hryðjuverkamaður. Ef þið sjáið hann, snúið ykkur þá til varnarmálaráðuneytisins þegar í stað." Hertoginn af Buckingham er Ríkarði innan handar í illvirkjunum, en snýst gegn honum, þegar hann fær ekki yfirráð yfir olíulindum sem honum hafði verið lofað. Ýmis fórnarlömb Ríkarðs fá skjól í bandaríska sendiráðinu, það er að lokum sendiherrann Richmont sem stjórnar innrás í landið og hann steypir Ríkarði úr stóli í „móður allra bardaga". Eftir það felur hann ekkju Játvarðar konungs að semja nýja stjórnarskrá svo lýðræðislegar kosningar geti farið fram í landinu. Var Shakespeare þá kannske arabi? Eftir að hafa séð þessa leiksýningu var ég ekki í neinum vafa um það: hann var arabi, og svo margt annað líka, hann á jafnt heima í Spír og Húsavík. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Einar Már Jónsson Mest lesið Inngilding – nýyrði sem enginn skilur? Miriam Petra Ómarsdóttir Awad Skoðun Vantar fleiri lyftara í heilbrigðiskerfið? Ragna Sigurðardóttir Skoðun Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun Að sætta sig við brot á samkomulagi eða ekki Jón Ágúst Eyjólfsson Skoðun Geðheilbrigðismál og landsbyggðin Eydís Ásbjörnsdóttir Skoðun Vilja miklu stærra bákn Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun
Sú kenning hefur stundum heyrst meðal araba að Shakespeare hafi í rauninni verið af þeirra kynþætti, arabi í húð og hár, og hafi hann nánar tiltekið verið höfðingi eða borgarstjóri, þ.e.a.s. „sjeik", yfir bænum Spír sem mun vera einhvers staðar norðarlega í Írak. Liggur þetta að sögn í augum uppi þegar nafnið er skrifað með arabísku letri, en auk þess hef ég heyrt fylgismenn þessarar kenningar benda á að til sé ljósmynd af hinu mikla leikritaskáldi klæddu á arabíska vísu, hvar svo sem hana er að finna. Frakkar hlæja gjarnan að þessu, svona álíka mikið og þeir hlæja þegar einhver heldur því fram að norrænir menn hafi siglt til Vínlands á austurströnd Norður-Ameríku á miðöldum. En nú hafa arabar fært fram ný og sterk rök fyrir því að Shakespeare hafi í raun og veru skrifað frá hægri til vinstri og vafalaust borið túrban líka, með því að sýna „Ríkarð þriðja" á arabískri tungu í einu merkasta leikhúsi Parísar, „Le Théatre des Bouffes du Nord", þar sem hinn víðfrægi leikhúsmaður Peter Brook ræður ríkjum, og til að ekkert færi nú á milli mála var þessi gerð leikritsins kölluð „Richard III, An Arab Tragedy". Leikstjórinn hét Sulayman Al-Bassam og í titilhlutverkinu var leikari að nafni Fayez Kazaq. Yfir þessari sýningu var óneitanlega sterkur heildarsvipur. Eins og hin enska útgáfa verksins gerðist þessi arabíska útgáfa á „15. öld", en það var að vísu samkvæmt arabísku tímatali og jafngildir sá tími seinni hluta 20. aldar og byrjun hinnar 21. eftir tímatali Vesturlandabúa; staðurinn var ónefnt furstadæmi eða konungdæmi í grennd við Persaflóa, þar sem auðugar olíulindir voru „í norðri". Sviðið var alveg autt, en aftast voru stór tjöld, þar sem stundum birtust silhúettur af mönnum sem sátu og pikkuðu á tölvu eða töluðu í síma, en stundum urðu tjöldin að risastórum sjónvarpsskermi. Til hægri við sviðið var fimm manna arabísk hljómsveit sem lék á ásláttarhljóðfæri, svo og pípu og lútu. Ríkarður af Gloucester birtist fyrst í einkennisbúningi engilsaxneskra hershöfðingja, en svo var hann fljótt kominn í arabísk klæði eins og flestallar aðrar persónur leikritsins. Í þessum búningum og öllu því látbragði sem þeim fylgdi, að ógleymdum hljóminum í tungumálinu, urðu samsærin, lygarnar og undirferlið í verkinu ákaflega sannfærandi, og sum atriði hittu svo vel í mark að varla varð á betra kosið. Það hefur t.d. oft vafist fyrir leikstjórum að setja á svið það atriði í fyrsta þætti verksins, þegar Ríkarður af Gloucester fer á fjörurnar við lafði Önnu við jarðarför Hinriks 6. tengdaföður hennar sem hann hafði sjálfur vegið, og biðlar til hennar með alls kyns leikaraskap. En í þessari arabísku gerð eru hinar syrgjandi konur að sjálfsögðu allar huldar svörtum blæjum svo það er hægðarleikur fyrir Ríkarð að dulbúa sig sem eina af þeim, bregða yfir sig sama hjúpi og laumast inn í jarðarförina með sitt ólíkindatal. Einungis nefið stendur út úr dúknum og kemur til kasta þess að túlka allt undirferlið. Manni finnst að þannig hljóti þetta atriði alltaf að hafa verið hugsað. Þegar Ríkarður af Gloucester kemur af stað þeim orðrómi að synir Játvarðar konungs fjórða séu bastarðar og ekki réttbornir til ríkis er í þessari gerð vitnað til DNA-rannsóknar sem framkvæmd hafi verið í „erlendri rannsóknarstofu". Þá virðist Ríkarður standa næst því að erfa ríkið, en hann biðst undan því, í þriðja þætti verksins, en hér er það atriði sett upp sem sjónvarpsumræður í beinni útsendingu, nokkuð auknar miðað við enska textann, og í miðjum klíðum hringir síminn: það er formaður Arababandalagsins að hvetja Ríkarð til að láta undan óskum allra og taka á sig konungdæmið. Þá var skúrkshátturinn orðinn svo yfirgengilegur að áhorfendur veltust um af hlátri. Ýmsir setja sig á móti Ríkarði, og þegar einn þeirra komst undan rigndi yfir leikhúsgesti miðum með mynd af honum og áletrun á arabísku og ensku: „Þessi maður er hryðjuverkamaður. Ef þið sjáið hann, snúið ykkur þá til varnarmálaráðuneytisins þegar í stað." Hertoginn af Buckingham er Ríkarði innan handar í illvirkjunum, en snýst gegn honum, þegar hann fær ekki yfirráð yfir olíulindum sem honum hafði verið lofað. Ýmis fórnarlömb Ríkarðs fá skjól í bandaríska sendiráðinu, það er að lokum sendiherrann Richmont sem stjórnar innrás í landið og hann steypir Ríkarði úr stóli í „móður allra bardaga". Eftir það felur hann ekkju Játvarðar konungs að semja nýja stjórnarskrá svo lýðræðislegar kosningar geti farið fram í landinu. Var Shakespeare þá kannske arabi? Eftir að hafa séð þessa leiksýningu var ég ekki í neinum vafa um það: hann var arabi, og svo margt annað líka, hann á jafnt heima í Spír og Húsavík.
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun