Fótbolti

Inter getur jafnað árangur granna sinna

Zlatan og félagar geta fagnað 14. titlinum um helgina
Zlatan og félagar geta fagnað 14. titlinum um helgina NordcPhotos/GettyImages

Ítalska liðið Inter Milan getur jafnað árangur granna sinna í AC Milan um helgina þegar hagstæð úrslit geta tryggt því 14. meistaratitilinn. Mílanóliðin eiga þó enn langt í Juventus, sem hefur unnið titilinn 25 sinnum.

Inter mætir Cagliari á heimavelli á sunnudaginn og þarf að vinna sigur þar og treysta á að Roma tapi gegn Torino - þá er titillinn í höfn. Þá yrði níu stiga munur á Inter og Roma í töflunni en Inter hefur betri stöðu í innbyrðisviðureignum.

Inter getur líka unnið titilinn á Ítalíu þriðja árið í röð í vor, en það hefur aðeins Juventus (5 ár í röð, 1931-1935 ), Torino (5 ár í röð, 1943-1949) og AC Milan (3 ár í röð, 1992-1994) tekist að gera í sögunni.

Inter fékk titilinn á silfurfati leiktíðina 2005-06 eftir hneykslismálið í kring um Juventus, varð meistari með yfirburðum í fyrra og verður að teljast afar sigurstranglegt að þessu sinni þrátt fyrir að hafa gefið mikið eftir á síðari helmingi leiktíðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×