Handbolti

Spánverjar tryggðu sér Ólympíusætið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mahmoud Gharbi reynir að verjast Spánverjanum Ruben Garabaya í leiknum í dag.
Mahmoud Gharbi reynir að verjast Spánverjanum Ruben Garabaya í leiknum í dag. Nordic Photos / AFP

Spánn vann í dag nauman sigur á Túnis í undankeppni Ólympíuleikanna í handbolta og tryggðu sér þar með sæti á leikunum í Peking í sumar.

Frakkar eru sömuleiðis komnir áfram upp úr riðlinum en Noregur og Túnis sitja eftir með sárt ennið.

Spánn vann eins marks sigur, 29-28, en hann var þó alls ekki öruggur. Túnis var með yfirhöndina, 27-26, þegar fjórar mínútur voru til leiksloka en Spánverjar skoruðu þá tvö mörk í röð og komust yfir, 28-27.

Spánverjar fengu tækifæri til að auka muninn í tvö mörk þegar ein og hálf mínúta var til leiksloka en létu verja frá sér úr opnu færi. En Norðmönnum til mikillar gremju misstu Túnisbúar boltann klaufalega í næstu sókn og Spánverjar komust tveimur mörkum yfir þegar mínúta var eftir, 29-27.

Túnis tókst að skora þegar ellefu sekúndur voru eftir en nær komust þeir ekki.

Spánverjar eru þar með komnir með fjögur stig í riðlinum, rétt eins og Frakkar en Noregur og Túnis eru einungis með eitt stig.

Leikur Frakka og Norðmanna síðar í dag hefur því enga þýðingu því bæði Spánn og Frakkland eru búin að tryggja sér sitt sæti á Ólympíuleikunum í Peking.

Albert Rocas skoraði sjö mörk fyrir Spán, Iker Romero sex og Ruben Garabaya fimm.

Hjá Túnis var Aymen Hammed markahæstur með sjö mörk. Anouar Ayed skoraði sex og Mahmoud Gharbi fjögur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×