Fótbolti

Kemst Milan í Meistaradeildina þrátt fyrir allt?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kaka og Filippo Inzaghi, leikmenn AC Milan, fagna marki.
Kaka og Filippo Inzaghi, leikmenn AC Milan, fagna marki. Nordic Photos / AFP
Svo gæti farið að AC Milan fái þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð þökk sé óförum Steaua Búkarest.

Talið er mjög líklegt að Steaua Búkarest verði vísað úr Meistaradeildinni þar sem forseti félagsins hefur verið sakaður um að hagræða úrslitum leikja.

Rúmenska knattspyrnusambandið hefur þegað refsað félaginu og forseta þess, George Becali. Hann er sakaður um að hafa greitt öðru rúmensku félagi tæpar 200 milljónir króna fyrir að hjálpa Steaua að vinna deildina.

Porto var umsvifalaust vísað úr Meistaradeildinni eftir að upp komst um hagrætt úrslitum leikja og verður að teljast afar líklegt að það verði einnig örlög Steaua.

Verði það tilfellið verður sæti Rúmeníu í Meistaradeildinni boðið Rapíd Búkarest. Hins vegar herma fregnir að félagið hafi ekki áhuga á að keppa í Meistaradeildinni og hið sama má segja um Dinamo sem varð í fjórða sæti í deildinni.

Samkvæmt því þarf Knattspyrnusamband Evrópu að bjóða AC Milan lausa sætið þar sem það er sterkasta liðið í Evrópu sem náði ekki að tryggja sér þátttökurétt í Meistaradeildinni.

Milan varð í fimmta sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar á nýliðnu tímabili.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×