Fótbolti

Sevilla lagði Real Madrid í sjö marka leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Renato fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Renato fagnar sigurmarki sínu í kvöld. Nordic Photos / AFP
Real Madrid tapaði mikilvægum stigum í toppbaráttu spænsku úrvalsdeildarinnar er liðið tapaði fyrir Sevilla á heimavelli, 4-3.

Adriano kom Sevilla yfir strax á þriðju mínútu en Raul jafnaði metin á þeirri átjándu.

N'dri Romaric og Freddy Kanoute komu Sevilla í 3-1 fyrir leikhlé en stuðningsmenn Real Madrid bauluðu er leikmenn gengu af velli.

Heimamenn börðust í síðari hálfleik og jöfnuðu svo metin á tveggja mínútna kafla. Fyrst skoraði Gonzalo Higuain á 67. mínútu og svo Fernando Gago tveimur mínútum síðar.

En það dugði ekki til. Á 77. mínútu fékk Arjen Robben að líta sitt annað gula spjald í leiknum og þar með rautt. Átta mínútum síðar skoraði Renato sigurmark leiksins.

Real Madrid féll niður í fimmta sæti deildarinnar þar sem Sevilla er nú í fjórða með 27 stig, einu meira en Real Madrid og jafn mörg og Valencia.

Barcelona er á toppi deildarinnar með 35 stig, sex stigum á undan Villarreal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×