Tónlist

Afmælisbörn hætta við túr

Hljómsveitin Brain Police hefur hætt við tónleikaferð sína um Evrópu vegna efnahagskreppunnar.
Hljómsveitin Brain Police hefur hætt við tónleikaferð sína um Evrópu vegna efnahagskreppunnar.

Rokkararnir í Brain Police, sem halda upp á tíu ára afmælið sitt á næstunni, hafa hætt við þriggja vikna tónleikaferð um Evrópu sem átti að standa yfir í nóvember og desember. Ástæðan er hrap íslensku krónunnar.

„Ferðin hækkaði um milljón á tveimur vikum þegar allt fór í steik. Evran er núna rúmlega tvisvar sinnum hærri en hún var þegar við fórum síðast út," segir trommarinn Jónbi. „Það var alls ekkert vit í þessu þannig að við slaufuðum þessu. Í staðinn erum við að vinna að nýrri plötu sem við gefum út á næsta ári."

Þótt þetta sé hundfúlt segir Jónbi að um lán í óláni hafi verið að ræða. „Við erum búnir að fara í fimm skipti í röð út með sama efni. Í samvinnu við útgefandann (Small Stone Records) komumst við að þeirri niðurstöðu að það væri viturlegast að gera þetta svona. Í rauninni liggur ekkert á, við erum ekki að missa af neinni lest."

Brain Police ætlar að halda upp á tíu ára afmælið 13. desember þegar mikið húllumhæ verður á skemmtistaðnum Amsterdam. Allir þeir sem hafa spilað með hljómsveitinni þennan áratug koma þar fram, þar á meðal söngvarinn fyrrverandi, Vagn Leví Sigurðsson, og gítarleikarinn Búi Bendtsen. - fb








Fleiri fréttir

Sjá meira


×