Bensín og brauð Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir skrifar 20. apríl 2008 07:00 Ég hlustaði á merkilegt spjall hjá dætrum mínum á leið heim úr leikskólanum um daginn þar sem þær sátu saman í aftursæti bílsins. Systurnar eru þriggja og sex ára. Leiðin heim úr leikskóla er gjarnan nýtt til að fara yfir helstu tíðindi og segja frá því sem þótti skemmtilegast í leikskólanum, hvað Ásdís kokkur eldaði fyrir krakkana og hverjir voru duglegastir að borða. NÝLEGA sagði sú yngri frá því að sungið hefði verið til heiðurs Jakobínu leikskólakennara sem flutti norður í land. Hópur tveggja og þriggja ára barna ákvað þá að syngja svo hátt að Jakobína myndi heyra sönginn alla leið norður. Það fannst mér fallegt eins og svo margt af því sem við foreldrarnir fáum að heyra af starfi leikskólans. Í þetta skipti var umræðan hins vegar pólitísk, það voru eldfim málefni bensínverðs. Sú eldri sagði litlu systur sinni nú frá því að vinkona hennar í leikskólanum hefði daginn áður farið með mömmu og systrum til að mótmæla háu bensínverði. Mæðgurnar sátu í bíl og flautuðu svo lengi að vinkonan hafði um tíma haldið að hún yrði örugglega heyrnarlaus. Svo varð þó blessunarlega ekki. STÓRA systirin bað mig vinsamlegast um að minna hana á að ræða málið við pabba þegar hann kæmi heim í kvöld, hann yrði að vita af þessu vandamáli með bensínið. Faðirinn er þingmaður og dóttirin hafði áttað sig á að þetta þyrfti hann að vita. Hún fór svo rækilega yfir stöðu mála og sagði frá því að verðið hefði hækkað mikið undanfarið og nú yrði að lækka það. Það ættu þingmennirnir að gera. Hún útskýrði svo snaggaralega fyrir litlu systur hvað bensínið gerir fyrir bílinn, sem er eins og vatn og brauð fyrir manninn. Í anda upplýstrar umræðu voru systurnar fljótlega farnar af þeirri braut að skilgreina bara vandann, þær ræddu lausnir. Eftir að hafa hlýtt á erindið spurði svo sú yngri þá eldri og vísari að því hvernig þingmennirnir lækkuðu eiginlega verðið og var djúpt hugsi. „Eru þingmennirnir með fjarstýringu?" spurði hún en stóra systir svaraði að bragði: „Nei, kjáninn þinn. Þeir bara segja það." Og með því var næsta mál sett á dagskrá. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Mest lesið Verðbólga í boði Viðreisnar Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun 16 ára aldurstakmark á samfélagsmiðlum Skúli Bragi Geirdal Skoðun Neglum niður vextina Kristrún Frostadóttir Skoðun Er 0,145% bankaskattur virkilega nóg? Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Börn, ungmenni og geðheilsa Tómas Þór Þórðarson,Gunnar Örn Jóhannsson Skoðun Opið bréf til forystu Kennarasambands Íslands (KÍ): Endurskoðum aðferðafræði verkfallsins Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun Ísland 2074 Kjartan Magnússon Skoðun Bætum umhverfið svo öll börn geti blómstrað Kristín Kolbrún Kolbeinsdóttir Waage Skoðun Úreltar og óréttmætar hvalveiðar Henry Alexander Henrysson Skoðun Áhyggjulaust ævikvöld Gísli Rafn Ólafsson Skoðun
Ég hlustaði á merkilegt spjall hjá dætrum mínum á leið heim úr leikskólanum um daginn þar sem þær sátu saman í aftursæti bílsins. Systurnar eru þriggja og sex ára. Leiðin heim úr leikskóla er gjarnan nýtt til að fara yfir helstu tíðindi og segja frá því sem þótti skemmtilegast í leikskólanum, hvað Ásdís kokkur eldaði fyrir krakkana og hverjir voru duglegastir að borða. NÝLEGA sagði sú yngri frá því að sungið hefði verið til heiðurs Jakobínu leikskólakennara sem flutti norður í land. Hópur tveggja og þriggja ára barna ákvað þá að syngja svo hátt að Jakobína myndi heyra sönginn alla leið norður. Það fannst mér fallegt eins og svo margt af því sem við foreldrarnir fáum að heyra af starfi leikskólans. Í þetta skipti var umræðan hins vegar pólitísk, það voru eldfim málefni bensínverðs. Sú eldri sagði litlu systur sinni nú frá því að vinkona hennar í leikskólanum hefði daginn áður farið með mömmu og systrum til að mótmæla háu bensínverði. Mæðgurnar sátu í bíl og flautuðu svo lengi að vinkonan hafði um tíma haldið að hún yrði örugglega heyrnarlaus. Svo varð þó blessunarlega ekki. STÓRA systirin bað mig vinsamlegast um að minna hana á að ræða málið við pabba þegar hann kæmi heim í kvöld, hann yrði að vita af þessu vandamáli með bensínið. Faðirinn er þingmaður og dóttirin hafði áttað sig á að þetta þyrfti hann að vita. Hún fór svo rækilega yfir stöðu mála og sagði frá því að verðið hefði hækkað mikið undanfarið og nú yrði að lækka það. Það ættu þingmennirnir að gera. Hún útskýrði svo snaggaralega fyrir litlu systur hvað bensínið gerir fyrir bílinn, sem er eins og vatn og brauð fyrir manninn. Í anda upplýstrar umræðu voru systurnar fljótlega farnar af þeirri braut að skilgreina bara vandann, þær ræddu lausnir. Eftir að hafa hlýtt á erindið spurði svo sú yngri þá eldri og vísari að því hvernig þingmennirnir lækkuðu eiginlega verðið og var djúpt hugsi. „Eru þingmennirnir með fjarstýringu?" spurði hún en stóra systir svaraði að bragði: „Nei, kjáninn þinn. Þeir bara segja það." Og með því var næsta mál sett á dagskrá.
Opið bréf til forystu Kennarasambands Íslands (KÍ): Endurskoðum aðferðafræði verkfallsins Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun
Opið bréf til forystu Kennarasambands Íslands (KÍ): Endurskoðum aðferðafræði verkfallsins Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun