Enski boltinn

Sissoko við það að fara til Juventus

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sissoko í baráttu við Brynjar Björn Gunnarsson, leikmann Reading.
Sissoko í baráttu við Brynjar Björn Gunnarsson, leikmann Reading. Nordic Photos / Getty Images

Mohamed Sissoko sagði í dag að hann væri mjög nálægt því að semja við Juventus og býst við því að fregna sé að vænta af málinu á allra næstu dögum.

„Ég er enn leikmaður Liverpool," sagði hann. „En ég býst við því að tilkynning verði gefin út á allra næstu dögum. Umboðsmaður minn og félögin tvö eru þessa stundina að vinna í málinu."

„Allir spyrja mig hvort ég hafi þegar skrifað undir samninginn. Ég hef ekki gert það en það er stutt í að félagaskiptin ganga í gegn. Ég er spenntur fyrir því að hefja nýtt ævintýri með nýju félagi."

Búist er við því að hann verði fyrst um sinn lánaður til Juventus sem mun síðan eiga þann kost að kaupa hann í lok tímabilsins.

Claudio Ranieri, stjóri Juventus, hefur áður sagt að hann vilji fá hann til liðsins en Sissoko lék undir stjórn hans hjá Valencia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×