Fótbolti

Ég hefði étið Zlatan lifandi

Zlatan hefði fengið að kenna á því hjá Bruno
Zlatan hefði fengið að kenna á því hjá Bruno AFP

Fyrrum varnarjaxlinn Pasquale Bruno hefur ekki mikið álit á mönnum eins og Zlatan Ibrahimovic og Alessandro Del Piero. Hann segir tíma til kominn til að kenna sænska framherjanum lexíu á knattspyrnuvellinum.

Bruno gerði garðinn frægan m.a. hjá Juventus á níunda áratugnum og fékk viðurnefnið "Dýrið" fyrir hörku sína. Hann hefur undanfarið unnið í sjónvarpi og hefur ekki mikið álit á stjörnum dagsins í dag í ítalska boltanum.

"Ibrahimovic er í sérflokki hvað tækni varðar, en hann er að láta varnarmenn líta mjög illa út með litlum óþokkabrögðum. Það er ótrúlegt að varnarmenn skuli ekki kenna honum lexíu," sagði Bruno og tók dæmi frá sínum eigin ferli.

"Ef menn eins og Marco Van Basten og Gianluca Vialli voru hræddir við mig - getið þið rétt ímyndað ykkur hvað ég hefði gert við menn eins og Ibrahimovich. Ég hefði étið hann lifandi," sagði Bruno.

Hann segir að Juventus-stjarnan Del Piero sé ofmetinn leikmaður. "Ekki reyna að segja mér að Del Piero sé súperstjarna. Ef hann er það - hvað voru þá menn eins og Lothar Matthäus og Careca? Voru þeir þá geimverur?"

Bruno er líka mjög ósáttur við leikaraskap í knattspyrnunni í dag.

"Við erum sannarlega ekki með bestu dómara í heimi hérna á Ítalíu eins og margir vilja meina - en leikmennirnir eru sannarlega ekki að hjálpa þeim að vinna vinnuna sína. Þú þarft ekki annað en að snerta þessa framherja í dag og þá hrynja þeir í grasið og væla. Ítalskir framherjar hugsa bara um eyrnalokka, húðflúr, næturklúbba og verslunarferðir. Ég þoli ekki leikara sem fiska menn í leikbönn," sagði Bruno, sem á sínum tíma varð Evrópumeistari með Juventus og spilaði líka með Fiorentina, Lecce, Hearts og Wigan á Englandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×