Fótbolti

Mourinho vill þjálfa á Ítalíu eða Spáni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho, fyrrum knattspyrnustjóri Chelsea.
Jose Mourinho, fyrrum knattspyrnustjóri Chelsea. Nordic Photos / AFP

Jose Mourinho sagði í samtali við Gazzetta dello Sport í dag að hann kæmi til með að þjálfa á annað hvort Ítalíu eða Spáni á næsta ári.

Hann sagði enn fremur að hann vildi þjálfa aftur á Englandi áður en hann lýkur ferlinum með því að þjálfa landslið Portúgal.

„Nei, núna er ég í námi," sagði Mourinho aðspurður um hvort að hann vildi snúa aftur í þjálfun nú. „En á næsta ári hins vegar - já."

Mourinho var því næst spurður um framtíðina og sagði hann einfaldlega að það væri annað hvort um Ítalíu eða Spán að ráða.

Hann hefur helst verið orðaður við Barcelona á Spáni og AC Milan á Ítalíu en síðarnefnda liðið féll úr leik í Meistaradeild Evrópu í vikunni og hefur átt erfitt uppdráttar í ítölsku úrvalsdeildinni í vetur.

Börsungar eru hins vegar komnir áfram í fjórðungsúrslit Meistaradeildarinnar en hafa mátt þola að vera í öðru sæti spænsku úrvalsdeildarinnar á eftir Real Madrid lengst af á tímabilinu.

„Ég ber virðingu fyrir Milan og Ancelotti en Arsenal átti skilið að fara áfram miðað við leikina tvo," sagði Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×