Fótbolti

Hættur hjá Palermo í fjórða sinn

Elvar Geir Magnússon skrifar
Ætli Francesco Guidolin sé nú farinn frá Palermo fyrir fullt og allt?
Ætli Francesco Guidolin sé nú farinn frá Palermo fyrir fullt og allt?

Francesco Guidolin heldur áfram að koma og fara hjá Palermo. Hann var í morgun rekinn úr starfi sem þjálfari liðsins en þetta er í fjórða sinn sem hann hættir sem þjálfari Palermo.

Hann stýrði Palermo fyrst 2004 en hann tók við því í janúar það ár og náði góðum árangri. Hann kom liðinu upp í A-deildina og í Evrópusæti ári síðar. Eftir það var hann ráðinn til Genoa.

Sumarið 2006 var hann óvænt ráðinn aftur til Palermo. Liðið byrjaði tímabilið vel en síðan fór að halla undan fæti og var hann rekinn 23. apríl í fyrra. Aðeins tuttugu dögum síðar var þó ákveðið að endurráða Guidolin sem stýrði liðinu út leiktíðina og lét síðan af störfum.

Guidolin var síðan ráðinn í fjórða sinn sem þjálfari Palermo 26. nóvember síðastliðinn og sagði þá í tilkynningu frá Palermo að hann væri nú kominn til að vera. En annað kom á daginn og Guidolin var látinn taka pokann sinn í dag eftir tap gegn Genoa um helgina.

Reiknað var með að Palermo myndi berjast um Evrópusæti á þessari leiktíð en liðið er í tólfta sæti deildarinnar. Maurizio Zamparini er forseti félagsins en hann er ekki þekktur fyrir mikla þolinmæði né að hugsa áður en hann framkvæmir.

Stefano Colantuono hefur verið ráðinn aftur sem þjálfari Palermo en hann tók við liðinu síðasta sumar en var rekinn þegar Guidolin tók við í nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×