Fótbolti

Stuðningsmenn Milan sýndu Maldini vanvirðingu í kveðjuleiknum

AFP

Ótrúlegir atburðir áttu sér stað í Mílanó í dag þegar Paolo Maldini síðasta heimaleik sinn fyrir AC Milan í 3-2 tapi fyrir Roma.

Maldini hefur spilað með AC Milan síðan árið 1985 og er einn dáðasti leikmaður í sögu félagsins. Fyrirliðinn hljóp einn hring í kring um völlinn eftir að flautað var til leiksloka og flestir áhorfendurnir klöppuðu fyrir honum og þökkuðu honum fyrir vel unnin störf.

Það var þó ekki að sjá hjá hörðustu stuðningsmönnum Milan, en þeir veifuðu stórum fána með númeri Franco Baresi fyrrum fyrirliða Milan sem á stóð "Það er aðeins einn fyrirliði." Heyra mátti blístur úr röðum ultras stuðningsmanna Milan þegar Maldini hljóp hringinn í lokin.

Þessi framkoma stuðningsmanna Milan er ótrúleg og meira að segja Luciano Spaletti þjálfari Roma fordæmdi framkomu stuðningsmanna Milan.

"Menn sem kunna ekki að meta Maldini elska ekki knattspyrnu og ættu frekar að vera heima hjá sér," sagði Spaletti.

Massimo Ambrosini skoraði tvívegis fyrir Milan í leiknum og var rekinn af velli í lokin, en þeir John Arne Riise, Jérémy Menez og Francesco Totti skoruðu mörk Roma.

Lecce og Fiorentina gerðu 1-1 jafntefli og því er Lecce fallið, en Fiorentina tryggði sér sæti á topp fjögur. Juventus vann langþráðan 3-0 sigur með tveimur mörkum frá Alessandro del Piero. Þá máttu meistarar Inter sætta sig við 2-1 tap fyrir Cagliari.

Ein umferð er eftir í A-deildinni og fer hún fram um næstu helgi.

Úrslitin á Ítalíu í dag:

Cagliari 2-1 Inter

Siena 0-3 Juventus

Milan 2-3 Roma

Lecce 1-1 Fiorentina

Torino 2-3 Genoa

Sampdoria 2-2 Udinese

Chievo 0-0 Bologna

Atalanta 2-2 Palermo

Catania 3-1 Napoli






Fleiri fréttir

Sjá meira


×