Fótbolti

Ronaldinho ekki lengur nógu góður fyrir brasilíska landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronaldinho komst ekki í 23 manna hóp Brasilíu.
Ronaldinho komst ekki í 23 manna hóp Brasilíu. Mynd/AFP
Ronaldinho var ekki valinn í 23 manna landsliðshóp Brasilíu sem mun taka þátt í Álfubikarnum í næsta mánuði. Landsliðsþjálfarinn Dunga er búinn að missa trúna á hinn 29 ára leikmann sem fyrir aðeins nokkrum misserum var talinn besti leikmaður heims.

Ronaldinho hefur alls leikið 87 leiki fyrir Brasilíu og skorað í þeim 32 mörk. Hann hefur skorað 8 mörk í 26 leikjum með AC Milan í ítölsku deildinni á þessu tímabili.

Ronaldinho lét engin vonbrigði í ljós þegar blaðamenn gengu á hann í kjölfar þess að hann var ekki valinn í landsliðið.

„Ég er bara að hugsa um næsta leik á móti Roma. Ég hef ekkert breyst. Ég reyni alltaf að spila vel og reyna að hjálpa mínu liði til að vinna. Nú þarf ég að halda gleði minni fyrir liðið mitt," sagði Ronaldinho.

Ronaldinho hefur verið mikið á bekknum hjá AC Milan og það hefur örugglega haft sitt að segja að hann er ekki valinn í landsliðið. „Ég bjóst við að spila meira og það hefur verið erfitt að sætta sig við að vera á bekknum. Það vilja allir leikmenn spila alla leiki," sagði Ronaldinho.

„Við eigum mikilvægan leik um helgina þar sem við verðum að vinna. Næsta tímabil vil ég gera góða hluti með þessu liði í Meistaradeildinni," sagði Ronaldinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×