Fótbolti

90 milljónir fyrir Zlatan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic í leik með Inter.
Zlatan Ibrahimovic í leik með Inter. Nordic Photos / AFP
Massimo Moratti, forseti Inter á Ítalíu, segir að Svíinn Zlatan Ibrahimovic sé ekki falur fyrir minna en 90 milljónir evra en leikmaðurinn er sagður vilja fara frá félaginu.

Barcelona er sagt hafa mikinn áhuga á Zlatan sem Moratti segir vera betri leikmann en Franck Ribery, leikmann Bayern München. Real Madrid er sagt eiga í viðræðum við Bayern um kaup á Ribery.

„Ef það er rétt að Bayern München hefur sett 70 milljóna evru verðmiða á Ribery þá munum við fara fram á ekki minna en 90 milljónir," sagði Moratti í samtali við ítalska fjölmiðla.

„Og ef við erum að ræða um Barcelona í því samhengi þá tel ég að Joan Laporta (forseti Barcelona) sé ekki á sömu fjárfestingarlínu og Real Madrid," bætti Moratti við og ítrekaði að félaginu hefðu engin tilboð borist í Svíann.

„Við viljum gjarnan halda Ibrahimovic. Hann er hjá Inter og hann er sá besti að mínu mati."

Moratti viðurkenndi þó að það kæmi til greina að kaupa Karim Benzema frá Lyon ef Ibrahimovic yrði seldur nú í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×