Brotinn er baugur Guðmundur Andri Thorsson skrifar 16. mars 2009 12:21 Baugur þýðir hringur. Þetta er hátíðlegt orð, hefur á sér fornan blæ, næstum skáldlegan, enda höfðu skáld til forna ást á fyrirbærinu sem þau fengu iðulega að kvæðalaunum hjá konungum. Baugurinn er djásn karlmannsins og getur táknað dyggðir sem karlmenn sjá stundum í eigin fari: algjöra hollustu, einbeitni, styrk. Orðið vekur hugrenningatengsl um góðmálm sem höfðingjum hæfir: baugur var eftirlætisdjásn hinna glysgjörnu víkinga. Hringurinn er máttugt tákn. Sá sem vill eignast hringinn girnist hið algera. Seilist eftir því sem ætti að vera utan seilingar dauðlegum. Hringurinn er tákn hins sjálfumnæga, hins eilífa. Hann minnir okkur á sólina, lífshjólið, hina órofa keðju lífsins. Hann er tákn valdsins. Baugur er fornt og þjóðlegt orð um hringinn og minnir á víkinga og gullna tíð, hirðlíf, munað, ríkidæmi - ágirnd og ógæfu. Hann er tákn þess algera, og þegar hann er tákn valdsins er hann jafnframt tákn hins algera valds sem um síðir leiðir til bölvunar. Ógæfan sem gullinu fylgir í fornum sögnum sogast iðulega öll inn í bauginn og tekur sér þar bólfestu; frá þessu segir í Eddukvæðum og þetta notaði Tolkien í Hringadróttinssögu. Því að baugurinn er ekki aðeins tákn þess sem órofa er - heldur er hann líka lokað form og leitast við að fella undir sig það sem utan hans er: opnar sig ekki fyrir því heldur fellir það undir sig... Ekkert bruðl Bónus var til hagsældar fyrir heimilin í landinu á sínum tíma og ótal skoðanakannanir vitna um hversu mikillar ástsældar þetta fyrirtæki nýtur meðal landsmanna - enn eftir öll þessi ár. Ekkert bruðl. Engin krítarkort, engar auglýsingar, ekkert pjatt, allt bara á vörubrettum í billegum innréttingum á billegum lóðum á höfuðborgarsvæðinu, billegar tegundir í billegum pakkningum... og notaðir saman tveir ljótustu liti sem má hugsa sér: hlandgult og skinkubleikt, því Íslendingar trúa því að hið ljóta sé alltaf hagkvæmara en hið fallega - sparigrís sem vörumerki, tákn ráðdeildar og hins billega bragðleysis svínakjötsins... Allt við Bónus vitnar auðvitað um snilligáfu í kaupmennsku, eins og raunar svo margt annað á ferli þeirra feðga, Jóns Ásgeirs og Jóhannesar. Það var kannski vitnisburður um ástandið í verslunarmálum landsins til margra ára að ekki skyldu fleiri mótmæla því þegar Bónus breyttist allt í einu í Baug, át Hagkaup - grísinn át úlfinn - og skömmu síðar 10/11. Þá gat Baugur boðið lægsta verðið og það hæsta. Því að baugur þýðir hringur. Og auðhringum vorum við vön. Verslunin í landinu hafði um árabil verið í höndum auðhringsins SÍS og heildsala í nánum tengslum við Sjálfstæðisflokkinn, sem seldu varninginn á því verði sem þeim sýndist. Hér var mikið heildsalaveldi - menn með sambönd fengu þægileg umboð - og þessir heildsalar voru ámóta bakhjarl Sjálfstæðisflokknum og SÍS var Framsókn með tilheyrandi fyrirgreiðslu í bönkum og annars staðar sem stjórnmálamenn gátu haft áhrif, sem var alls staðar. Þetta ástand sprengdi Baugur upp og naut við það velþóknunar hins almenna borgara en vakti upp vanþóknun Davíðs. Fólki þótti sem Bónusfeðgar væru uppreisnarmenn gegn Valdinu, Hrói Höttur gegn Fógetanum í Nottingham... Meira að segja eftir að þeir voru búnir að kaupa sjálfa Nottingham - og heildsalar útdauð stétt - já meira að segja eftir að þeir voru farnir að kalla sig Baug. Ekkert nema bruðl Sem þýðir hringur. Og hringur í viðskiptalífinu táknar einokun. Okkur var sagt að einokunin væri svo miklu hagkvæmari en þeim væri treystandi, þeir væru nefnilega fulltrúar fólksins gegn valdinu. Þeir nærðust á hatri Davíðs og létu það vera sér eldsneyti í stríðinu um yfirráðin í íslensku viðskiptalífi. Þeir sóttust eftir hinu algera valdi. Baugurinn stækkaði og stækkaði - og stækkaði. Útþenslan varð sjálfumnægt markmið, sjálfstætt afl. Fólki þótti sem Baugsmenn gripu gæsir, létu hluti gerast, létu allt borga sig af því að þeir voru svo snjallir í að reka fyrirtæki - þurftu víst ekki að halda alls konar fundi til að ræða málin eins og hinir svifaseinu Danir og Englendingar, tóku bara ákvarðanir bang bang bang - fóru svo í partí eftir að hafa keypt Litlu Hafmeyjuna og Big Ben - en þeir voru á valdi útþenslunnar og allt út á krít. Öllum sem á vegi þeirra urðu og viðruðu efasemdir breyttu þeir í Davíð - öfundarúrtölur gamla valdsins - og slógu þar með ryki í augu okkar en þeir voru á fleygiferð út í buskann. Ofurseldir útþenslunni. Á valdi baugsins. Á endanum stóð Baugur fyrir ekkert nema bruðl. Nú eru þeir feðgar frjálsir undan honum. Gangi þeim vel. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Mest lesið Halldór 16.11.2024 Halldór Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Opið bréf til næsta heilbrigðisráðherra Teitur Guðmundsson Skoðun Aðgangur bannaður Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Einkavæðing súrefnisins Björn Þorláksson Skoðun Dagur íslenskrar tungu 2024: Væntumþykja í 60 ár Eva María Jónsdóttir Skoðun Íslensku menntaverðlaunin og vandi íslenska skólakerfisins Meyvant Þórólfsson Skoðun Á að vera landbúnaður á Íslandi? Ágústa Ágústsdóttir Skoðun Leyfum ungmennum að sofa – hættum að sofa á verðinum Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson Skoðun Er 0,145% bankaskattur virkilega nóg? Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun
Baugur þýðir hringur. Þetta er hátíðlegt orð, hefur á sér fornan blæ, næstum skáldlegan, enda höfðu skáld til forna ást á fyrirbærinu sem þau fengu iðulega að kvæðalaunum hjá konungum. Baugurinn er djásn karlmannsins og getur táknað dyggðir sem karlmenn sjá stundum í eigin fari: algjöra hollustu, einbeitni, styrk. Orðið vekur hugrenningatengsl um góðmálm sem höfðingjum hæfir: baugur var eftirlætisdjásn hinna glysgjörnu víkinga. Hringurinn er máttugt tákn. Sá sem vill eignast hringinn girnist hið algera. Seilist eftir því sem ætti að vera utan seilingar dauðlegum. Hringurinn er tákn hins sjálfumnæga, hins eilífa. Hann minnir okkur á sólina, lífshjólið, hina órofa keðju lífsins. Hann er tákn valdsins. Baugur er fornt og þjóðlegt orð um hringinn og minnir á víkinga og gullna tíð, hirðlíf, munað, ríkidæmi - ágirnd og ógæfu. Hann er tákn þess algera, og þegar hann er tákn valdsins er hann jafnframt tákn hins algera valds sem um síðir leiðir til bölvunar. Ógæfan sem gullinu fylgir í fornum sögnum sogast iðulega öll inn í bauginn og tekur sér þar bólfestu; frá þessu segir í Eddukvæðum og þetta notaði Tolkien í Hringadróttinssögu. Því að baugurinn er ekki aðeins tákn þess sem órofa er - heldur er hann líka lokað form og leitast við að fella undir sig það sem utan hans er: opnar sig ekki fyrir því heldur fellir það undir sig... Ekkert bruðl Bónus var til hagsældar fyrir heimilin í landinu á sínum tíma og ótal skoðanakannanir vitna um hversu mikillar ástsældar þetta fyrirtæki nýtur meðal landsmanna - enn eftir öll þessi ár. Ekkert bruðl. Engin krítarkort, engar auglýsingar, ekkert pjatt, allt bara á vörubrettum í billegum innréttingum á billegum lóðum á höfuðborgarsvæðinu, billegar tegundir í billegum pakkningum... og notaðir saman tveir ljótustu liti sem má hugsa sér: hlandgult og skinkubleikt, því Íslendingar trúa því að hið ljóta sé alltaf hagkvæmara en hið fallega - sparigrís sem vörumerki, tákn ráðdeildar og hins billega bragðleysis svínakjötsins... Allt við Bónus vitnar auðvitað um snilligáfu í kaupmennsku, eins og raunar svo margt annað á ferli þeirra feðga, Jóns Ásgeirs og Jóhannesar. Það var kannski vitnisburður um ástandið í verslunarmálum landsins til margra ára að ekki skyldu fleiri mótmæla því þegar Bónus breyttist allt í einu í Baug, át Hagkaup - grísinn át úlfinn - og skömmu síðar 10/11. Þá gat Baugur boðið lægsta verðið og það hæsta. Því að baugur þýðir hringur. Og auðhringum vorum við vön. Verslunin í landinu hafði um árabil verið í höndum auðhringsins SÍS og heildsala í nánum tengslum við Sjálfstæðisflokkinn, sem seldu varninginn á því verði sem þeim sýndist. Hér var mikið heildsalaveldi - menn með sambönd fengu þægileg umboð - og þessir heildsalar voru ámóta bakhjarl Sjálfstæðisflokknum og SÍS var Framsókn með tilheyrandi fyrirgreiðslu í bönkum og annars staðar sem stjórnmálamenn gátu haft áhrif, sem var alls staðar. Þetta ástand sprengdi Baugur upp og naut við það velþóknunar hins almenna borgara en vakti upp vanþóknun Davíðs. Fólki þótti sem Bónusfeðgar væru uppreisnarmenn gegn Valdinu, Hrói Höttur gegn Fógetanum í Nottingham... Meira að segja eftir að þeir voru búnir að kaupa sjálfa Nottingham - og heildsalar útdauð stétt - já meira að segja eftir að þeir voru farnir að kalla sig Baug. Ekkert nema bruðl Sem þýðir hringur. Og hringur í viðskiptalífinu táknar einokun. Okkur var sagt að einokunin væri svo miklu hagkvæmari en þeim væri treystandi, þeir væru nefnilega fulltrúar fólksins gegn valdinu. Þeir nærðust á hatri Davíðs og létu það vera sér eldsneyti í stríðinu um yfirráðin í íslensku viðskiptalífi. Þeir sóttust eftir hinu algera valdi. Baugurinn stækkaði og stækkaði - og stækkaði. Útþenslan varð sjálfumnægt markmið, sjálfstætt afl. Fólki þótti sem Baugsmenn gripu gæsir, létu hluti gerast, létu allt borga sig af því að þeir voru svo snjallir í að reka fyrirtæki - þurftu víst ekki að halda alls konar fundi til að ræða málin eins og hinir svifaseinu Danir og Englendingar, tóku bara ákvarðanir bang bang bang - fóru svo í partí eftir að hafa keypt Litlu Hafmeyjuna og Big Ben - en þeir voru á valdi útþenslunnar og allt út á krít. Öllum sem á vegi þeirra urðu og viðruðu efasemdir breyttu þeir í Davíð - öfundarúrtölur gamla valdsins - og slógu þar með ryki í augu okkar en þeir voru á fleygiferð út í buskann. Ofurseldir útþenslunni. Á valdi baugsins. Á endanum stóð Baugur fyrir ekkert nema bruðl. Nú eru þeir feðgar frjálsir undan honum. Gangi þeim vel.
Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun
Geðdeild Akureyrar aðeins með 10 pláss á legudeild fyrir sjúklinga með alvarlegan geðrænan vanda Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun