Tónlist

Kvennagrúppa spilar

Tónlist Trio Nordica: Bryndís, Mona og Auður.
Tónlist Trio Nordica: Bryndís, Mona og Auður.

Kvennagrúppan Trio Nordica hefur um fimmtán ára skeið haldið saman og spilað margbreytilega tónlist fyrir landann og erlenda áheyrendur, tekið upp hljómplötur og gefið út. Á sunnudaginn koma þær fram á tónleikum Kammermúsíkklúbbsins í Bústaðakirkju.

Á efnisskránni hjá þeim stöllum eru þrjú verk, sitt úr hverri áttinni: píanótríó í f-moll eftir Dvorák, tríó eftir Henze og píanótríó eftir Taneyev. Er um frumflutning að ræða á tríói Taneyevs hér á landi, en tríóið er afar krefjandi og stórbrotið. Trio Nordica skipa Auður Hafsteinsdóttir fiðluleikari, Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari og Mona Kontra píanóleikari. Taneyev er ekki kunnur hér á landi en hann fæddist 1856 og lést 1915, kominn af tónlistarfólki, lærði hjá Tchaikovskí og var honum handgenginn, kunnur píanóleikari á sinni tíð og kennari, setti saman stórt fræðilegt verk um kontrapunkt og minna um canónuna. Hann var alfræðingur en leit á tónsmíðar sem stærðfræðilegt verkefni. Eftir hann liggja mörg verk af fjölbreytilegu tagi, þeirra á meðal ópera sem sækir texta í Oresteiu Eskilosar. Verk Dvoráks og Henze eru kunnari hér á landi.

Tríóið hefur leikið víðs vegar og fengið frábæra dóma fyrir leik sinn. Fram undan er fjöldi tónleika, meðal annars á Íslandi, Finnlandi og í Svíþjóð. Tríóið mun vera með tónleika á Listahátíð í Reykjavík 2009. Trio Nordica hefur nýlokið upptökum á geisladisk gefnum út af INTIM Musik, með verkum eftir Elfridu Andrée, en hún var sænskt tónskáld, fædd 1841 og lést 1929. Hún var framarlega í sveit framakvenna á sinni tíð og naut álits í Svíþjóð en hún starfaði sem organisti við dómkirkjuna í Gautaborg. Meðal verka hennar má nefna óperuna Friðþjófs sögu, fjórar sinfóníur oog smærri verk meðal annars fyrir tríó sem þær stöllur hafa nú hljóðritað.

Tónleikaröð Kammermúsíkklúbbsins er aðgengileg á vefsíðu klúbbsins www.kammer.is, en tónleikar hans hafa um langt árabil verið í Bústaðakirkju. pbb@frettabladid.is












Fleiri fréttir

Sjá meira


×