Fótbolti

Beckham fer aftur til Bandaríkjanna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Beckham í búningi LA Galaxy.
David Beckham í búningi LA Galaxy. Nordic Photos / Getty Images
Forráðamenn LA Galaxy segja að ekkert verði af því að David Beckham verði seldur til AC Milan á Ítalíu eftir að síðarnefnda félagið náði ekki að koma með ásættanlegt tilboð í Beckham á tilsettum tíma.

Forráðamenn Galaxy höfðu sagt að nauðsynlegt væri að útkljá þetta mál fyrir miðnætti í gær. AC Milan gerði fimm milljóna punda tilboð í Beckham í síðustu viku en því var hafnað. Ekkert annað tilboð barst og því ekki útliti fyrir annað en að Beckham snúi aftur til Los Angeles þann 8. mars næstkomandi.

„David er að einbeita sér að leiknum um helgina," sagði Simon Oliveira, talsmaður Beckham, í samtali við enska fjölmiðla. „Við munum fara yfir þetta mál í upphafi næstu viku."

Beckham á þó þann möguleika að kaupa sig úr samningnum og getur einnig samkvæmt klausu í samningi sínum farið án greiðslu frá Galaxy í október næstkomandi.

AC Milan mætir Inter í borgarslag Mílanóborgar annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×