Viðskipti erlent

U2 hagnast um 50 milljarða á tónleikaferð

Rokksveitin U2 er nú á tónleikaferð um heiminn og þess er vænst að yfir þrjár milljónir manna muni mæta á tónleika þeirra. Áætlað er að hagnaður U2 af förinni verði um 50 milljarðar kr.

Í frétt um málið á business.dk segir að þann 11. og 12. júlí hafi U2 leikið á algerlega uppseldum tónleikum á Stade de France. Tímaritið Billboard áætlar að hagnaður sveitarinnar af þeim tónleikum einum nemi rúmlega 2,5 milljörðum kr. Fyrstu sex tónleikarnir á „360 degrees" tónleikaferðinni hafi gefið U2 um 7,2 milljarða í aðra hönd. Alls mun U2 koma fram á 44 tónleikum á ferðalagi sínu.

Þetta eru þó ekki allt hreinar tekjur í vasa meðlima U2 því áætlað er að kostnaður sveitarinnar af tónleikaferðinni nemi rúmum 12 milljörðum kr.

U2 er ekki mikið fyrir að borga of mikið af sköttum af tekjum sínum. Nefnir business.dk það að fyrir nokkrum árum hafi sveitin flutt lögheimili sitt frá Írlandi til Hollands þar sem skattareglur eru ekki eins íþyngjandi fyrir pyngju U2.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×