Fótbolti

Knattspyrnusamband Ítalíu aðvarar stuðningsmenn Juventus

Ómar Þorgeirsson skrifar
Mario Balotelli.
Mario Balotelli. Nordic photos/AFP

Giancarlo Abete, forseti knattspyrnusambands Ítalíu, hótar hörðum viðlögum í viðtölum við ítalska fjölmiðla í dag ef að stuðningsmenn Juventus haldi sig ekki á mottunni þegar Inter kemur í heimsókn á Ólympíuleikvanginn í Tórínó um næstu helgi.

Stuðningsmenn Juventus gerðust sekir um kynþáttaníð í garð framherjans Mario Balotelli hjá Inter í deildarleik félaganna í Tórínó á síðasta tímabili og félagið þurfti í kjölfarið að greiða sekt og spila einn leik fyrir luktum dyrum.

Nú er til skoðunnar annað mál sem varðar söngva um Balotelli sem áttu sér stað á meðan á leik Juventus og Bordeaux stóð í Meistaradeildinni á dögunum.

„Knattspyrnusamband Ítalíu líður ekki kynþáttafordóma og mun taka fast á söngvum sem geta flokkast sem kynþáttaníð. Það kemur til greina að stoppa leikinn í tíu mínútur ef stuðningsmenn verða uppvísir um kynþáttaníð eða þá að stoppa hann alveg," segir Abete.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×