Fótbolti

Beckham óttast ekki baulið

Nordic Photos/Getty Images

David Beckham segist ekki óttast að hluti stuðningsmanna LA Galaxy eigi eftir að baula á hann þegar hann snýr loksins aftur til liðsins frá AC Milan í sumar.

Hluti stuðningsmanna bandaríska liðsins hafa gefið frat í enska landsliðsmanninn eftir að hann heimtaði að fá að vera áfram á Ítalíu til að eiga möguleika á að spila fleiri leiki með landsliðinu.

"Ég hef fengið gagnrýni og baul áður og sú hlið leiksins truflar mig ekki. Sannir knattspyrnuáhugamenn skilja að ég hef ástríðu fyrir því að spila fyrir þjóð mína og er tilbúinn að gera hvað sem er til að svo megi verða," sagði Beckham í samtali við BBC.

Beckham átti upphaflega að snúa aftur til Los Angeles þann 9. mars en lánssamningurinn hans var framlengdur til 10. júlí.

Alexi Lalas, fyrrum framkvæmdastjóri LA Galaxy og maðurinn sem fékk hann til Los Angeles á sínum tíma, var kaldur í svörum þegar hann var spurður út í Beckham-málið.

"Ef fólkið baular á hann, verður það honum sjálfum að kenna," sagði Lalas.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×