Viðskipti erlent

Þingnefnd rannsakar innlán sveitarfélaga á reikninga bankanna

Nefnd á vegum breska þingsins rannsakar nú þá ákvörðun margra sveitastjórna í Bretlandi að leggja sparifé inn á reikninga íslensku bankanna, en féð var fryst þegar bankarnir hrundu í október. Richard Kemp borgarfulltrúi í Liverpool borg hefur fullyrt fyrir nefndinni að viðræður við skilanefndir bankanna gæfu ástæðu til þess að vonast til að féð fengist greitt.

Meira en eitt hundrað sveitarfélög áttu peninga inn á reikningunum og segir Kemp að í öllum tilfellum hafi verið farið að varkárni þegar ákvörðun um að leggja fé inn á þessa reikninga hafi verið tekinn. Tilgangurinn hefði verið að fá sem bestu vexti fyrir sparifé sveitafélaganna. Íslensku bankarnir hefðu allir haft hátt lánshæfismat þegar ákvörðun um að leggja fé inn á reikninga þeirra var tekin.

Mark Cullinan borgartjóri í Liverpool tók í sama streng og Kemp þegar að hann mætti fyrir rannsóknarnefndina. Hann sagði að fyllstu varkárni hefði verið gætt þegar að ákveðið var að leggja fé inn á reikninga íslensku bankanna. Það hefði verið gert í samráði við fjármálaráðgjafa borgarinnar. Íslensku bankarnir hefðu, líkt og margar aðrar bankastofnanir, einfaldlega ekki staðist þrýstingin sem skapaðist vegna alþjóðlegu lausafjárskreppunnar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×