Fótbolti

Eiður: Iniesta á heiðurinn að markinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári, Iniesta og Busquets fagna marki Eiðs í gær.
Eiður Smári, Iniesta og Busquets fagna marki Eiðs í gær. Nordic Photos / AFP

Eiður Smári Guðjohnsen sagði í samtali við heimasíðu Barcelona að Andrés Iniesta ætti mesta heiðurinn skilinn að markinu sem Eiður skoraði í gær.

Eiður tryggði Börsungum 2-1 sigur á Atletico Madrid í 16-liða úrslitum spænsku bikarkeppninnar í gær en þetta var síðari viðureign liðanna. Barcelona vann samanlagðan 5-2 sigur og mætir Espanyol í fjórðungsúrslitum sem hefjast 21. janúar næstkomandi.

Eiður náði að fylgja eftir skoti Sergio Busquets sem var varið en hann hafði fengið sendingu frá Iniesta sem hafði leikið varnarmenn Atletico grátt.

„Við vorum í góðri stöðu eftir fyrri leikinn og spiluðum mjög fagmannlega í kvöld," sagði Eiður eftir leikinn. „Við spiluðum vel og nokkrir leikmenn sem hafa ekki spilað jafn mikið og aðrir fengu tækifærið í kvöld."

„Leikurinn var hraður og síðara markið í seinni hálfleiknum var nóg til að gera út um leikinn."

„Ég veit ekki hvort að leikmenn séu í betra líkamlegu formi nú en í fyrra en við erum allavega að keyra upp hraðann í þeim leikjum sem við spilum í. Andstæðingar okkar eiga erfitt með að halda í við okkur."

„Stjórinn var búinn að segja okkur að við fengjum allir tækifæri til að spila. Það eru alltaf einhverjir sem spila meira en þegar lið vinna titla þegar leikmannahópurinn er sterkur."

„Það er alltaf gott að skora en ég verð að segja að Iniesta á mesta heiðurinn skilinn fyrir markið, hann lagði það upp á frábæran máta."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×