Fótbolti

Ancelotti hefur ekki mikinn áhuga á Chelsea eða Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti vill vera áfram hjá AC Milan.
Carlo Ancelotti vill vera áfram hjá AC Milan.

Carlo Ancelotti vill frekar halda áfram að þjálfa ítalska liðið AC Milan en að söðla um og fara annaðhvort til Englands eða Spánar. Það er vitað að bæði Chelsea og Real Madrid hafa áhuga á að ráða Ancelotti en hann vill vera áfram í heimalandinu.

„Mín ósk er að halda áfram hjá AC Milan þar að segja ef að okkur tekst að vera meðal þeirra þriggja efstu í deildinni og tryggja okkur þátttökurétt í Meistaradeildinni á næsta tímabili," sagði Ancelotti í viðtali við Gazzetta dello Sport.

Ancelotti hefur verið þjálfari AC Milan frá árinu 2001 og hefur stjórnað liðinu í meira en 400 leikjum. Hann lék líka yfir 100 leiki fyrir liðið á árunum 1987 til 1992.

Ancelotti er efstur á blaði til að taka við Chelsea-liðinu þegar Guus Hiddink hættir með liðið eftir tímabilið en nú er líklegt að Roman Abramovich þurfi að leita annað eftir framtíðarstjóra Lundúnaliðsins.

AC Milan án litla möguleika á að vinna ítalska meistaratitilinn í ár þar sem liðið er í 3. sæti 14 stigum á eftir nágrönnum sínum í Inter sem eru á toppnum. AC Milan hefur ekki orðið ítalskur meistari síðan 2004 en liðið vann þó Meistaradeildina fyrir tveimur árum.

Ancelotti hefur þó fengið skýr skilaboð um að lágmarksárangur í vetur sé að ná 3. sætinu. Hann kennir meiðslum um vandræðagang AC Milan í vetur og talaði einnig um það í þessu viðtali að Liverpool væri sterkasta liðið í Evrópu og að hann bæri mesta virðingu fyrir Guus Hiddink.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×