Viðskipti erlent

Yfir hálfri milljón kreditkortanúmera var stolið

Hafir þú átt kreditkortaviðskipti við netverslanir í Bandaríkjunum frá því 12. mars og fram til 8. júní í ár borgar sig að fylgjast vel með færslum á kortinu þínu.

Í ljós hefur komið að yfir hálfri milljón kreditkortanúmera var stolið hjá Network Solutions sem hýsir kreditkortaviðskipti fyrir 4.300 netverslanir vestan hafs.

Samkvæmt frétt í tímaritinu ComputerWorld mun tölvuþrjótum hafa tekist að lauma „njósna-forriti" inn á netþjóna Network Solutions en fyrirtækið er hið stærsta sinnar tegundar í Bandaríkjunum. Forritið sendi síðan upplýsingar um kreditkortanúmerin ásamt nöfnum og heimilisföngum viðkomandi til netþjóna utan Network Solutions.

„Við erum búin að hafa samband við lögregluna og erum að upplýsa viðskiptavini okkar um málið," segir Susan Wade hjá Network Solutions. „Í augnablikinu er ekki ástæða til að halda að kortanúmerin hafi verið misnotuð en við erum einnig í sambandi við kortafyrirtækin."

Hinar stolnu upplýsingar geta verið notaðar við ýmsa efnahagsglæpi og hægt er að nota hin stolnu númer til að villa á sér heimildir.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×