Fótbolti

Berlusconi skrifar hrakfarir Milan á Ancelotti

Nordic Photos/Getty Images

Silvio Berlusconi, eigandi AC Milan, segir að það sé þjálfaranum Carlo Ancelotti að kenna að liðinu hafi ekki tekist að tryggja sér ítalska meistaratitilinn.

Erkifjendurnir í Inter eru aðeins hársbreidd frá því að tryggja sér enn einn meistaratitilinn, en Milan hefur ekki unnið hann síðan árið 2004.

"Við misstum af titlinum vegna Ancelotti. Við notuðum ekki réttar leikaðferðir. Við erum með mikið af mönnum sem geta skapað hættu með því að rekja boltann, en við nýttum það ekki," var haft eftir Berlusconi í ítölskum fjölmiðlum.

Varaforseti Milan vildi ekki taka undir þessi ummæli þegar ítalskir fjölmiðlar leituðu svara hjá honum. Hann ætlar ekkert að tjá sig um þjálfaramálin fyrr en eftir lokaleik liðsins á tímabilinu.

Því hefur verið haldið fram lengi að Ancelotti muni fara frá Milan í sumar og þessi ummæli eigandans þykja renna stoðum undir það.

Ancelotti hefur mikið verið orðaður við Chelsea og er talinn líklegasti eftirmaður Guus Hiddink þegar hann hættir í sumar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×