
Allt það sem Jean Paul Gaultier kemur að er fyrirfram vitað að verður einstakt og jafnvel skrítið. Á tískusýningu hans á haustdögum var engin breyting þar á og sló hann upp heljarinnar partíi á tískupöllum Parísarborgar.
Gaultier leitaði á náðir Ziggy Stardust fyrir vor- og sumarlínu sína, en línan var áberandi lík hugarburði Davids Bowie. Hönnun Gaultiers minnti um margt á gleðskap í byrjun áttunda áratugarins með Ziggy Stardust í fararbroddi fyrirsætnanna, sem báru úfna hanakamba í stíl við litskrúðug föt.
Stór og skemmtileg munstur prýddu föt Gaultiers auk áberandi litasamsetningar og oft á tíðum óvenjulegrar samsetningar.