Fótbolti

Leonardo segir að Beckham fái nóg að spila

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Beckham í leik með AC Milan.
David Beckham í leik með AC Milan. Nordic Photos / AFP
Leonardo, knattspyrnustjóri AC Milan, segir að David Beckham muni fá nóg að spila hjá félaginu en hann gekk til liðs við það um áramótin á lánssamningi frá LA Galaxy í Bandaríkjunum.

Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands, segir að aðeins leikmenn sem spili reglulega með sínum liðum komi til greina fyrir HM í sumar.

Beckham var einnig í láni hjá AC Milan á sama tíma á síðasta ári og kom þá við sögu í átján deildarleikjum með liðinu. Þá var Carlo Ancelotti, núverandi stjóri Chelsea, við völd hjá Milan.

„Það eru margir leikir á dagskrá næsta mánuðinn," sagði Leonardo við ítalska fjölmiðla. „David mun fá fullt af tækifærum til að spila og það er engin spurning um að hann mun hafa stóru hlutverki að gegna á síðara hluta tímabilsins."

„Fáum enskum knattspyrnumönnum hefur gengið vel á Ítalíu en David hefur aðlagast lífinu hér vel. Ég hef fulla trú á því að David líði vel hérna og það er afar mikilvægt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×