„Þarna er mikil neyð og við ákváðum því að gefa meira vatn,“ segir Jón Ólafsson, stjórnarformaður Icelandic Water Holdings, sem framleiðir átappað lindarvatn á flöskum undir merkjum Icelandic Glacial á jörðinni Hlíðarendi við Þorlákshöfn.
Fyrirtækið sendi í vikunni 42 tonn af vatni á flöskum til Haítí. Fólk þar hefur glímt við mikla neyð í kjölfar jarðskjálfta sem reið þar yfir í byrjun árs og lagði höfuðborgina Port-au-Prince nánast í rúst. Hjálparstofnun úti sem ekki er rekin í hagnaðarskyni dreifir vatninu til nauðstaddra.
Í síðasta mánuði braust út kólerufaraldur í borginni og hefur hann dregið 1.415 manns til dauða. Þar að auki eru 56 þúsund taldir hafa veikst af völdum faraldursins og óttast að allt að tvö hundruð þúsund til viðbótar geti veikst á næstu mánuðum. Kólera getur komið upp þar sem hreinlæti er af skornum skammti og aðgangur að hreinu drykkjarvatni takmarkaður. Í borginni búa nú 1,3 milljónir manna við slæman kost í búðum fyrir þá sem misstu heimili sín í jarðskjálftanum.
Fyrirtæki Jóns, sem er að hluta til í eigu bandaríska drykkjavörurisans Anheuser Busch, sendir vatnið til Haítí frá Bandaríkjunum. Þetta er þriðja sendingin frá því að jarðskjálftinn reið yfir.
- jab